148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[19:11]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það má vel velta fyrir sér hvort rétt sé að færa allan kosningaaldur niður til 16 ára aldurs, en við erum í rauninni ekki að fjalla um það í dag. Við erum að fjalla um það hvort gera eigi þessar breytingar á lögum um kosningar til sveitarstjórna af því að það gilda ekki sömu leikreglur hvað varðar kosningar til sveitarstjórna og kosningar til þings, eins og ég kom inn á í ræðu minni fyrr í dag. Það er þannig. Svo höfum við einnig, eins og sjá má í áliti meiri hlutans, dæmi um það utan úr Evrópu, frá Norðurlöndum, að gerðar hafa verið tilraunir eða tekin alfarið ákvörðun um að lækka bara kosningaaldurinn í sveitarstjórnum.

Ég kom aðeins inn á það áðan að ástæðan fyrir því að það hentar kannski betur í sveitarstjórnum en á þingi er einmitt vegna hlutverks sveitarstjórna, bæjarstjórna og borgarstjórnar, þar sem hlutverk þeirra varðar mun meira þetta nærsamfélag, allra nánasta samfélag einstaklingsins. Þannig er þar um að ræða miklu meiri nálægð við íbúana en við erum í hér á Alþingi.

Varðandi mismunandi réttindi og mismunandi skyldur er það alveg rétt að það er auðvitað á ýmsan hátt, en ég vil samt ítreka að ég er alls ekki sammála því að lækka eigi sjálfræðisaldurinn aftur einfaldlega vegna verndarsjónarmiða. Ég tal að barn eigi að fá að njóta þess að lúta ákveðinni vernd samfélagsins lengur en til 16 ára aldurs.