148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

vistvæn opinber innkaup á matvöru.

251. mál
[19:24]
Horfa

Flm. (Þórunn Egilsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um vistvæn opinber innkaup á matvöru, á þskj. 353, máli 255, en þar er fjármála- og efnahagsráðherra falið að vinna frumvarp þess efnis að ávallt skuli taka tillit til umhverfissjónarmiða og dýravelferðar við opinber innkaup á matvöru. Frumvarpið skal leggja fyrir Alþingi fyrir maíbyrjun 2019. Auk mín eru hv. þingmenn Halla Signý Kristjánsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir og Silja Dögg Gunnarsdóttir á tillögunni.

Hæstv. forseti. Í greinargerð frumvarpsins segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Miklu varðar að lágmarka losun gróðurhúsalofttegunda, notkun skaðlegra hormóna og eiturefna, ofnotkun sýklalyfja sem leiðir af sér fjölónæmar bakteríur og önnur skaðleg áhrif á umhverfið og velferð dýra við framleiðslu og flutning matvöru. Ríki og sveitarfélög geta haft veruleg áhrif þar á með því að hafa umhverfisvernd og dýravelferð að leiðarljósi við innkaup á matvöru. Til dæmis má ætla að hátt í 150.000 manns — nemendur, starfsfólk hjá hinu opinbera, vistmenn á dvalar- og öldrunarheimilum og fleiri — eigi reglulega kost á að borða í mötuneytum á vegum hins opinbera. Ef miðað er við að tveir þriðju þeirra neyti þess kosts er um 100.000 manns að ræða.

Íslensk lög um opinber innkaup, nr. 120/2016, byggjast á evrópskri tilskipun ESB um opinber innkaup. Í tilskipuninni er viðurkennt að nýta megi opinber innkaup til að vinna að umhverfisvernd og velferð dýra. Lög um opinber innkaup beinast þó einkum að því að tryggja að innkaup séu hagkvæm og gera opinberum aðilum almennt aðeins heimilt, en ekki skylt, að taka tillit til umhverfisverndar við innkaup. Með tillögu þessari er lagt til grundvallar að ávallt verði tekið tillit til umhverfisverndar og dýravelferðar við opinber innkaup á matvöru. Ríki og sveitarfélög leggi þannig þungt lóð á vogarskálar vistvænnar matvælaframleiðslu.“

Ríkisstjórnin hefur nú þegar sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum sem ná lengra en Parísarsamkomulagið gerir ráð fyrir. Markmiðið um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040 kallar á breiðan stuðning við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki og atvinnugreinar í viðleitni þeirra til að setja sér markmið í loftslagsmálum. Allar stærri opinberar áætlanir þarf nú að meta út frá loftslagsmarkmiðum. Hjá því verður ekki komist ef við ætlum að ná árangri í loftslagsmálum og standast alþjóðlegar skuldbindingar.

Í tillögum Alþingis um hvernig efla megi græna hagkerfið er lögð áhersla á að ríkið verði jákvæð fyrirmynd. Þar er fjallað um hvernig samþætta megi sjónarmið um umhverfisvernd við góða innkaupahætti. Í stefnunni um vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur sem stjórnvöld undirrituðu 9. apríl 2013 er tekið mið af báðum þessum þáttum. Hún hefur náð að festa sig í sessi í allri opinberri umræðu og þykir nánast sjálfsögð í dag. Sú stefna nær þó ekki yfir opinber innkaup á matvöru eins og hér hefur verið fjallað um. Þannig hefur reynslan sýnt að opinber innkaup eru öflugt tæki til að efla samfélagslega ábyrgð og ná þannig fram jákvæðum markmiðum. Þau eru órjúfanlegur hluti af hagkerfinu og mikilvægt stjórntæki í opinberum rekstri.

Markmið laga um opinber innkaup er að tryggja jafnræði fyrirtækja, stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri með virkri samkeppni og efla nýsköpun og þróun við innkaup hins opinbera á vörum, verkum og þjónustu, samanber 1. gr. laganna. Því kann að vera flókið í framkvæmd að finna raunhæfa leið sem tekur bæði tillit til umhverfisverndar og dýravelferðar við opinber innkaup á matvöru. Ekki er hægt að skylda stofnanir og sveitarfélög til að velja íslenska matvöru þótt vissulega megi færa rök fyrir að velja ætti íslenska matvöru öðru fremur og efla íslenska matvælaframleiðslu vegna gæða hennar og hreinleika.

Niðurstaða skýrslu um kolefnisspor garðyrkjunnar sem unnin var fyrir Samband garðyrkjubænda sýnir, svo dæmi sé nefnt, að íslensk garðyrkja hefur mest forskot þegar afurð er flutt inn með flugi. Það að flytja salat til landsins kostar rúmlega þrefalt meira kolefni en allt ferlið á Íslandi og er hlutfall íslenska kolefnissporsins um 26% af því innflutta. Allt skiptir þetta máli í stóra samhenginu þegar talið berst að umhverfismálum.

Á þessum tímum verður varla komist hjá því að opinber innkaup taki í meira mæli mið af þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í málum er varða umhverfisvernd. Mig langar í því sambandi að draga fram nokkur atriði úr neytendastefnu íslenskra sauðfjárbænda sem mér finnst vert að nefna í þessu sambandi. Þar er lögð áhersla á að neytendur fái sem mestar upplýsingar um þær afurðir sem bændur framleiða í sátt við náttúru og samfélag. Bæta á upplýsingagjöf til neytenda þannig að umhverfisfótspor matvöru komi skýrt fram með tilliti til kolefnislosunar, áburðarnotkunar, erfðabreytts fóðurs, sýklalyfjanotkunar, hormónanotkunar o.s.frv. Taka á sérstaklega fram ef ekki er með öllu ljóst að afurðir séu af dýrum sem alin eru við sambærilegar dýravelferðarreglur og gilda hérlendis. Þar er fjallað sérstaklega um fordæmi hins opinbera við neytendavernd með siðlegri innkaupastefnu en þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Gerð verði skýlaus krafa um að fyrir liggi upplýsingar um uppruna, dýravelferð, umhverfisfótspor, hormóna-, lyfja- og eiturefnainnihald við öll opinber innkaup með tilliti til þeirra þátta sem greinir í lið 1–4. Það sé forsenda innkaupa bæði ríkis og sveitarfélaga að matvörur standist ströngustu gæðakröfur í þessu tilliti.

Hollusta, hreinleiki og umhverfisfótspor með tilliti til sýklalyfjanotkunar, dýravelferðar, hormóna-, lyfja- og eiturefnanotkunar verði metin a.m.k. jafn þýðingarmikil við opinber útboð og innkaup á matvælum og verð eða hæfi bjóðenda. Þetta gildi um ríki, sveitarfélög og allar opinberar stofnanir og félög.“

Við þetta má svo bæta að í neytendastefnu íslenskra sauðfjárbænda til 2027 er gert ráð fyrir að búið verði að kolefnisjafna íslenska sauðfjárrækt fyrir 2027 og að allar íslenskar sauðfjárafurðir verði vottaðar með lágmarksumhverfisspori fyrir 2027. Íslenskt sauðfé er nú þegar alið án hormóna og vaxtarhvetjandi lyfja og erfðabreytt fóður hefur verið bannað. Notkun á sýklalyfjum er með því minnsta sem þekkist í heiminum. Við erum svo heppin að búa við hagstæð veður- og loftslagsskilyrði svo ekki er sérstök þörf á eitur- eða hjálparefnum í íslenskri sauðfjárrækt. Og áburðarnotkun er lítil í alþjóðlegum samanburði.

Allt eru þetta mikilvæg atriði er lúta að umhverfisvernd, dýravelferð og neytendavernd. Er ekki sjálfsögð krafa að neytendur fái skýrar upplýsingar um þessi atriði svo þeir geti haft upplýst val við kaup á vöru?

Hæstv. forseti. Nýlega lagði hv. þm. Þórarinn Ingi Pétursson fram fyrirspurn til skriflegs svars til allra ráðuneyta Stjórnarráðsins um hlutfall íslenskra matvæla í innkaupum ráðuneyta. Svar hefur enn ekki borist en það verður forvitnilegt að sjá hve hátt hlutfallið er.

Þá vil ég einnig fá að geta þess að í skýrslu til Alþingis frá Ríkisendurskoðun kemur fram að við erum líklega komin skemmst á veg varðandi vistvæn innkaup þegar kemur að matvælum. Mestum árangri höfum við náð í innkaupum á pappír og hreinlætisvörum. Það er mjög einfalt. Þar fara menn bara eftir svansmerktum vörum. Það eru skýrar leiðbeiningar með ákveðnum merkingum á vörum. Þar hefur mikið áunnist en það er verk að vinna þegar kemur að matvælum. Það er snúnara. Yfirleitt er verkefnunum útvistað til verktaka við innkaup. Kannski þarf að skýra reglurnar þegar kemur að þeim lið, þegar útboðin fara fram og menn gangast inn í þau. Það þyrfti að laga þetta, þar er verk að vinna og ég vona að við berum gæfu til að stíga þau skref áfram. Í raun ber okkur skylda til að fara eftir þeirri stefnu sem hefur verið í gildi frá 1998 en sú stefna, um vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur, var endurskoðuð árið 2013. Við erum á réttri braut en þurfum að bretta upp ermar og ná betri árangri. Með þessum hætti getum við líka styrkt innlenda matvælaframleiðslu. Ég er hvergi feimin við það, hún stenst fyllilega samanburð við framleiðslu annars staðar. Hér erum við með mikil gæði og þurfum að þekkja hvernig allir ferlar eru, allt frá því að varan verður til og þar til hún kemur á borð neytandans. Þar stöndum við sterk fyrir.

Ég vona að þetta mál fái framgang og legg það hér fram.