148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

hvarf Íslendings í Sýrlandi.

[10:47]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Mikið hefur borið á umfjöllun um mál Hauks Hilmarssonar sem er horfinn en síðast spurðist til hans í Afrin-héraði í Sýrlandi. Málið ætti að vera hæstv. ráðherra vel kunnugt enda hefur hann verið með það til meðferðar í ráðuneyti sínu undanfarnar vikur. Í fyrri fyrirspurn minni til ráðherra vil ég einbeita mér að málsmeðferð hæstv. ráðherra og ráðuneytis hans í máli Hauks.

Annars vegar vil ég spyrja út í samskipti og upplýsingagjöf hæstv. ráðherra og ráðuneytis hans við fjölskyldu Hauks. Hins vegar vil ég spyrja hvernig hæstv. ráðherra hefur beitt sér á alþjóðavettvangi í máli Hauks.

Nánustu aðstandendur Hauks Hilmarssonar eiga skýlausan rétt á að vera haldið vel upplýstum um þá vinnu sem fer fram innan ráðuneytis ráðherra sem og hjá öðrum yfirvöldum við að finna Hauk. Sá réttur hefur ítrekað verið staðfestur af Mannréttindadómstóli Evrópu, byggður á 2., 3., og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig stendur á því að fjölskylda Hauks þurfti að hafa samband við ráðuneytið að eigin frumkvæði tveimur dögum eftir að fregnir bárust fyrst af meintu andláti Hauks? Hvernig stendur á því að hæstv. ráðherra hafði sjálfur ekki samband við fjölskyldu Hauks fyrr en þó nokkrum dögum eftir það?

Í öðru lagi liggur fyrir að ráðherra bárust ábendingar frá alþjóðadeild ríkislögreglustjóra um að beita sér eftir hefðbundnum diplómatískum leiðum til að finna Hauk þann 8. mars sl. Þar vísaði alþjóðadeildin til þess að slíkar aðferðir hefðu reynst öðrum þjóðum best í aðgerðum sem þessum. Ég spyr því: Hvenær hafði hæstv. ráðherra beint samband við kollega sína í Tyrklandi? Hvernig stendur á því að það dróst í fleiri daga eftir að þessi ábending barst frá alþjóðadeild ríkislögreglustjóra?