148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

hvarf Íslendings í Sýrlandi.

[10:52]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Já, ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og vonast til að fá ítarlegri útskýringar á athöfnum hæstv. ráðherra sjálfs við það að ræða við fjölskyldu Hauks, í síðara svari hans. Það er hins vegar stutt svar og ég hef aðra spurningu til hæstv. ráðherra. Hún snýr að árásum Tyrkja á kúrdíska borgara í Norður-Sýrlandi sem gengur undir því óhuggulega íroníska nafni ólífugreinsaðgerðin, eða „Operation Olive Branch“, og þær eru framkvæmdar án samþykkis öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þær fara fram með þöglu samþykki flestra NATO-þjóða en nú ber svo við að kanslari Þýskalands hefur fordæmt árásirnar.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Lítur hann svo á að um ólögmæta innrás og árás Tyrkja inn í Sýrland og á Kúrda sé að ræða samanber stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna? Sé ráðherra sammála mér um að svo sé: Telur ráðherra ekki tilefni til að fordæma þessa innrás og beita sér eftir fremsta megni gegn hernaðaraðgerðum Tyrkja á svæðinu, á vettvangi NATO sem og annars staðar á alþjóðavettvangi?