148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

hvarf Íslendings í Sýrlandi.

[10:53]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda áfram að reyna að koma að svörum við þeim spurningum sem hv. þingmaður kom með. Þegar kemur að símtölum við ráðherra eru tímasetningar lykilatriði og mikilvægt að hafa reynt ýmsar aðrar leiðir áður, m.a. til grundvallar efni slíkra samtala. Þannig voru ráðherrarnir vel upplýstir um málið og greinilegt að reynt hafði verið að afla upplýsinga um það á grundvelli fyrri samskipta. Við vorum strax upplýst um að eftirgrennslan yrði tímafrek.

Þrátt fyrir að sú sé ekki venjan hjá nágrannaþjóðum taldi ég sjálfsagt að árétta mikilvægi málsins beint við utanríkisráðherra og varnarmálaráðherra Tyrklands enda er það einsdæmi í seinni tíð að Íslendingur sé jafnvel talinn af í vopnuðum átökum.

Hvað varðar aðgerðir Tyrklands í Afrin gagnrýndu íslensk stjórnvöld hernaðaraðgerðir Tyrkja gegn Kúrdum í Sýrlandi örfáum dögum eftir að þær hófust þann 20. janúar 2018. Var það gert beint við sendiherra Tyrklands gagnvart Íslandi og í framhaldinu var málið reifað í utanríkismálanefnd.