148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

virkjun Hvalár á Ströndum.

[10:56]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn varðandi Hvalárvirkjun og náttúrufegurð á hálendi Vestfjarða þar sem við hv. þingmaður erum algjörlega sammála. Ég verða þó að rifja það upp að Hvalárvirkjun var skipað í nýtingarflokk rammaáætlunar, við annan áfanga rammaáætlunar, sem var afgreidd hér á Alþingi ef ég man rétt þingveturinn 2012–2013. Þá samþykkti Alþingi það og eins og hv. þingmaður þekkir er vinnuferlið þannig að virkjunarkostum er skipað niður í vernd, bið og nýtingu og ferlið sjálft ber alltaf í sér samanburð á kostum. Síðan tekur það við, eins og hv. þingmaður þekkir, að ef ákveðið er að ráðast í nýtingu þarf að ráðast í mat í umhverfisáhrifum og síðan er það sveitarstjórnar að taka afstöðu til útgáfu framkvæmdaleyfis þegar það mat liggur fyrir.

Ég hef sagt það hér og ég hef ekki skipt um skoðun á því að ég hef lýst áhyggjum yfir því að þegar Alþingi gengur frá flokkun virkjunarkosta þá er í raun og veru veruleg vinna eftir við mat á umhverfisáhrifum en Alþingi fær ekki aftur þessa ákvörðun til sín. Ferillinn sem við höfum komið okkur saman um hér er þessi. Í ljósi þess sem hv. þingmaður nefnir hér, hvað skal gera ef mat á umhverfisáhrifum skilar jafnvel neikvæðum niðurstöðum í mörgum liðum, er þá eðlilegt að sveitarstjórn, eins og nú er lögum samkvæmt, fari eingöngu með framkvæmdaleyfi eða ætti einhver annar ferill að taka við? Það er hins vegar miklu stærri spurning en varðar þennan tiltekna virkjunarkost. Það varðar í raun og veru það hvernig við tökum ákvarðanir almennt um vernd og nýtingu.

Persónulega tel ég að það væri eðlilegt að við tækjum þetta til skoðunar því að við höfum átt þetta samtal áður, ekki bara um Hvalárvirkjun, við höfum líka til að mynda átt þetta samtal um virkjanir í neðri hluta Þjórsár þar sem (Forseti hringir.) við erum með verulegan vafa um hvaða áhrif muni hafa á villta laxastofninn (Forseti hringir.) sem er í rauninni ekki undir í skoðun verkefnisstjórnar rammaáætlunar.