148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

virkjun Hvalár á Ströndum.

[11:00]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hvatninguna. Það sem ég kom að í mínu fyrra svari er að við höfum sammælst um ákveðið lagaumhverfi og ákveðinn feril. Við verðum að gera okkur grein fyrir að þegar við erum að fást við þessi mál þurfum við að virða það lagaumhverfi og þann ramma sem Alþingi hefur sjálft sett sér. Það kallar á umræðu, tel ég, hér á Alþingi ef við viljum breyta þeim ramma og þeim ferlum sem við höfum sett niður.

Ég get haft mínar skoðanir á því eins og allir vita enda greiddi ég til að mynda atkvæði gegn Hvammsvirkjun og minn þingflokkur, einn þingflokka á sínum tíma, ásamt tveimur öðrum þingmönnum, þegar lagt var til að hún færi í nýtingarflokk, bara svo að ég rifji það hér upp. En um leið ber ég virðingu fyrir því að meiri hlutinn hér á Alþingi hefur komist að ákveðinni niðurstöðu í þessu máli.

Síðan hlýt ég að minna hv. þingmann á að forgangsverkefni þessarar ríkisstjórnar er auðvitað að tryggja afhendingaröryggi og nýta betur það rafmagn sem við eigum í þessu landi en erum ekki að nýta eins og skyldi hér í dag með því að treysta línulagnir. Þar þarf ekki endilega nýjar virkjanir til. Ég held að við hv. þingmaður (Forseti hringir.) séum alveg sammála um það. Þar þarf að skoða hvernig við getum betur nýtt þá orku sem er inni á kerfinu. Það er forgangsverkefni þessarar ríkisstjórnar.