148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

raforkumarkaðsmál.

[11:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er komið inn á nokkur mjög stór grundvallarmál. Í fyrsta lagi: Þegar um svona mál er að ræða á Alþingi síðasta orðið. Það er sá fyrirvari sem menn gera í Evrópusamvinnunni, að þeir hafa ekki að stjórnskipunarlögum heimild til að skuldbinda Ísland við samningaborðið úti í Brussel án aðkomu Alþingis. Það er nú aðalatriðið varðandi fyrirvarana. Í öðru lagi er hér um að ræða í efnisatriðum mjög stórt mál sem á yfirborðinu, hugsanlega, varðar ekki með beinum hætti íslenska raforkumarkaðinn vegna þess að boðvald viðkomandi sameiginlegrar stofnunar virkjast ekki fyrr en íslenski markaðurinn tengist þeim evrópska.

Engu að síður, veltum því samt fyrir okkur. Mér finnst þetta mjög gott mál til að ræða aðeins innrimarkaðsmál í víðara samhengi. Veltum því fyrir okkur hvað við höfum með það að gera á innri markaði Evrópu að vera að ræða raforkumál sem eru í eingangruðu mengi á Íslandi úti í Brussel. Hvað höfum með það að gera að vera að ræða við önnur ríki Evrópusambandsins raforkumál af eyjunni Íslandi? Er það mál sem varðar innri markaðinn með beinum hætti, þegar engin er tengingin? Eða treystum við okkur til þess að skipa endanlega þeim málum sem varða íslenskan raforkumarkað til lykta á okkar forsendum eins og Alþingi kýs?

Þetta finnst mér vera spurningar sem eru mjög verðugar mikillar umræðu hér í þinginu.

Síðan er það annað mál og mikið framtíðarmál hvaða regluverk ætti að taka við ef menn tengja íslenska raforkumarkaðinn, sem engin áform eru uppi um núna, við hinn evrópska og (Forseti hringir.) hvaða reglur ættu að gilda þar. Í því tilviki finnst mér eðlilegt að menn ættu í einhvers konar samstarfi.