148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

raforkumarkaðsmál.

[11:06]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég kýs að túlka svar ráðherra eða svaraleysi sem svo að ráðherrar flokksins hafi þá einmitt ekkert gert til að gæta sérstaklega að íslenskum hagsmunum. Það er ágætt að hafa í huga í þessu samhengi að þetta er mikilvægt mál, það er alveg rétt, þetta snýr að skuldbindingum okkar samkvæmt EES-samningnum. Það eru allmörg ár liðin frá því að við tókum evrópskan raforkumarkað upp hér á landi. Þetta er einn angi af því máli. Það er kannski ágætt að hafa líka í huga, þegar vísað er til tveggja stoða lausnarinnar svokölluðu, að hér er stuðst við nákvæmlega sömu tveggja stoða lausn og tekin var upp varðandi fjármálamarkaðinn og hæstv. fjármálaráðherra staðfesti fyrir hönd þáverandi ríkisstjórnar. Það var einmitt beðið með þessa reglugerð og upptöku hennar í EES-samninginn þar til niðurstaða næðist um fjármálamarkaðinn því að ákvörðunin fól í sér að beitt yrði nákvæmlega sömu tveggja stoða aðferð varðandi raforkumarkaðinn; þar sem hagsmunirnir væru heldur minni í raforkumarkaði en fjármálamarkaði var þetta látið bíða.

En þess vegna spyr ég kannski í ljósi, ja, getum við sagt síharðnandi ummæla Sjálfstæðisflokksins og (Forseti hringir.) hvernig lappirnar eru dregnar síendurtekið þegar kemur að framkvæmd EES-samningsins: Styður Sjálfstæðisflokkurinn áframhaldandi gildi EES-samningsins hér á landi? Styður Sjálfstæðisflokkurinn ríkisstjórn sem hann á sæti í sem leggur einmitt mikla áherslu á vandaða framkvæmd EES-samningsins?