148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

raforkumarkaðsmál.

[11:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Bara til að afgreiða þessa síðustu spurningu skýrt: Auðvitað styðjum við EES-samninginn, aðild okkar að honum og betri framkvæmd hans. Um það höfum við haft forgöngu hér í þinginu að ræða og gefið út sérstakar skýrslur í því efni og reyndar utanríkisráðherra með sérstaka áherslu á framkvæmd EES-samningsins.

Það sem ég á svo erfitt með að skilja er áhugi hv. þingmanns og sumra hér á þinginu á að komast undir boðvald samevrópskra stofnana. Hvað í ósköpunum liggur mönnum á að komast undir sameiginlega raforkustofnun Evrópu (Gripið fram í.) á okkar einangraða landi með okkar eigið raforkukerfi? Hvers vegna í ósköpunum hafa menn áhuga á því að komast undir boðvald þessara stofnana? (ÞorstV: Við erum þegar undir því.) Ja, vegna þess að við erum þegar undir því? Eru það rök, hæstv. forseti? Eru það rök að þar sem Evrópusambandinu hefur þegar tekist að koma Íslandi undir einhverja samevrópska stofnun sé ástæða til að ganga lengra?

Mér finnst vera svo mikið grundvallaratriði (Forseti hringir.) að við skilgreinum hvað séu innrimarkaðsmál sem við viljum sinna sérstaklega (Forseti hringir.) undir EES-samningnum og hvað séu mál sem tengjast ekki beint innri markaðnum. Hérna erum við með kristaltært dæmi um það, raforkumál Íslands eru ekki innrimarkaðsmál. Síðan eru atriði í löggjöfinni sem við erum þegar búin að innleiða (Forseti hringir.) sem er sjálfsagt að halda áfram að laga að samningnum. (Gripið fram í: Og þið hafið ekki gert.)