148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fyrirspurnir þingmanna.

[11:16]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Já, ég má til með að koma hingað upp og taka undir með öðrum hv. þingmönnum sem hér hafa talað um mikilvægi þess að hæstv. ráðherrar svari fyrirspurnum á réttum tíma og beiti sér eftir fremsta megni til þess að verða við þeirri eftirlitsskyldu sem við erum að sinna hér á þessu þingi. Það hefur líka borið við, og ég hef tekið eftir því ítrekað, kannski vegna þess að þetta er mín nefnd, ég hef tekið eftir því endurtekið hjá dómsmálaráðuneytinu, að það svari ekki á tilsettum tíma óskum um minnisblöð, upplýsingar; skili þeim jafnvel seint og um síðir og jafnvel ekki, án þess að nokkrar skýringar fylgi og raunar þannig að það fari á svig við þingskaparlög.

Ég vil líka beina því til hæstv. forseta að við förum að leita leiða til að hafa sterkari verkfæri til að kalla fram þessar upplýsingar og bregðast við þegar ráðuneytin verða ítrekað ekki við lögbundnum skyldum sínum samkvæmt þingsköpum og stjórnarskrá eins og forseti minntist réttilega á. (Forseti hringir.) Ættum við ekki að skoða það á vettvangi þingsins hvernig við getum betur staðið að því að krefja ráðuneyti svara sem draga lappirnar og svara engu?