148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fyrirspurnir þingmanna.

[11:19]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Við mætum hingað með tölvurnar, Píratarnir. En þegar þessi umræða kemur upp keyri ég í gang forritið mitt sem sýnir fjölda svaraðra og ósvaraðra fyrirspurna. Nú er búið að svara 81 fyrirspurn á þessu þingi og 141 er ósvarað. En fyrirspurnir sem er ósvarað eru með meðalsvartíma upp á 16 daga á meðan meðalsvartími í virkum dögum er 24 dagar, sem er aðeins betra en t.d. á 146. löggjafarþingi þar sem meðalsvartími var 39 dagar og á 145. þar sem meðalsvartími var 38 … (Gripið fram í: Hvað með 123.?) — Það er langt síðan, ég gæti keyrt það í gegn á eftir, ekkert mál. En þetta er tilfinnanlega lengri tími en gert er ráð fyrir í þingsköpum. Ég hef nefnt það áður að við þurfum að skoða hvort veitt sé nægt fjármagn til þess. Eða erum við þá að krefjast of mikils miðað við það fjármagn sem við setjum í þetta? Eigum við þá að lengja tímann eða eigum við að veita meira fjármagn til að hægt sé að svara fyrirspurnum á réttum tíma?