148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fyrirspurnir þingmanna.

[11:21]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Mig langar aðeins að ræða um fjölda fyrirspurna og þá orðræðu sem hefur verið í gangi hvað þær varðar, að þær kosti svo mikið, þetta sé svo tímafrekt og taki svo mikið af tíma starfsfólks í ráðuneytunum. Svo hefur sérstaklega verið vegið að einum hv. þingmanni fyrir að kosta þetta þing allt of mikið þegar hann sinnir eftirlitsskyldu sinni. Ég hef á tilfinningunni að nú eigi að skjóta á þá þingmenn sem hafa verið hvað duglegastir við að veita framkvæmdarvaldinu aðhald og mér líkar ekki að fá endurtekin skilaboð frá forseta úr ráðuneytunum um að þau hafi ekki undan að svara þessum spurningum okkar og hugsanlega verði einhvern veginn minna úr möguleika okkar á að veita framkvæmdarvaldinu aðhald ef við fækkum þeim ekki eða bregðumst ekki við á einhvern hátt.

Ég hef á tilfinningunni að þarna eigi að draga tennurnar úr okkur og gera lítið úr þeim þingmönnum sem hafa upplýst um mjög alvarlega hluti á þessu þingi og láta eins og þeir kosti almenning í þessu landi talsverða peninga á meðan þeir eru að upplýsa hvað við öll kostum almenning í þessu landi.