148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

tollgæslumál.

[11:32]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að vilja vera hér í dag og eiga við mig orðastað um tollgæsluna. Tolleftirlit og starfsemi tollstjóra er mjög mikilvægt okkur öllum og eftir mörg mögur ár hillir loks undir fjölgun í starfsliði tollstjóra á ný, og er það vel. En betur má ef duga skal. Umsvifaaukningin er þvílík að meira þarf að koma til en þegar hefur verið gert.

Í því sambandi má nefna að árið 2006 fóru 2,3 milljónir farþega um Keflavíkurflugvöll, á síðasta ári 8,8 milljónir og væntanlega 10 milljónir á þessu ári. Auk þess hafa umsvif við innflutning, bæði smápakka og almennra vörusendinga, aukist verulega.

Tolleftirlit er mjög nauðsynlegt vegna þess að það kemur í veg fyrir að hingað rati hlutir, efni, sem við viljum ekki; fíkniefni, vopn, ólögleg matvæli o.s.frv. Þannig að það er mikilvægt að þetta öryggishlutverk sé vel rækt. Víst er að starfsmenn tollstjóra hafa undanfarin ár unnið þrekvirki við mjög erfiðar aðstæður, bæði vegna mannfæðar og skorts á tækjum.

Það er einmitt eitt af því sem við þurfum að hafa í huga vegna þess að starfsemi tollstjóra er stundum nokkuð þunnt út smurt. Tollverðir á þessu svæði þurfa líka að sinna Seyðisfirði, þeir þurfa að sinna Reykjavíkurhöfn, Keflavíkurflugvelli, og síðan höfum við alþingismenn nefnt að taka upp nýja áfangastaði í farþegaflugi, t.d. Akureyri og Egilsstaði. Það kallar á aukinn viðbúnað.

Tæknibúnaður tollstjóra og starfsmanna hans hefur látið á sjá í niðurskurði undanfarinna ára. Ég mun nefna eitt dæmi í því efni. Svokallaður röntgenbíll, eða gegnumlýsingarbíll, sem notaður hefur verið til að skoða gáma hér í Reykjavík og víðar, er orðinn 10 ára gamall og úr sér genginn. Einn slíkur bíll kostar nýr 400 millj. kr. Eitt af því sem fylgir starfsemi tollstjóra er að þar eru gjöld endurákvörðuð og ýmislegt slíkt, þannig að tekjur eru af þeirri starfsemi. Það er því ekki alveg einsýnt að þetta séu allt saman útgjöld.

Það þarf að auka verulega í fíkniefnaviðbúnað. Fjölga þarf hundum og fleira. Það þarf að gera. Það er dýrt.

Við verðum að hafa í huga að sömu lögmál gilda í tolli og í lögreglu. Ef við viljum bæta við einum tollverði á sólarhringsvakt kostar það rúm fimm stöðugildi, þ.e. að manna eina sólarhringsstöðu. Það þarf því nokkuð til.

Ég veit að eftirliti með útflutningi hefur ekki verið sinnt eins og menn hefðu viljað. Eftirlit með útflutningi skiptir ekki minnstu máli. Það varðar t.d. þýfi. Og ef útflutningsskýrslur eru ekki rétt útfærðar verða hagtölur á Íslandi ekki réttar. Þarna er brýnt að bæta úr.

Að síðustu vil ég fara yfir innheimtuþátt tollstjóra. Tollstjórinn er veigamesti aðilinn í innheimtum á ríkissjóðsgjöldum, hverjum sem þau eru, sköttum og svo framvegis. Bætt innheimta tollstjóra um 1 prósentustig eru 6–8 milljarðar í ríkissjóð, 0,5% er þá 3–4 milljarðar, 0,1% er 600–700 milljónir. Þannig að það er eftir miklu að slægjast vegna þess að hér er ekki um nýja skattheimtu að ræða. Þetta eru þegar álögð gjöld. Það þarf að bæta innheimtuna. Þess vegna langar mig að skora á hæstv. fjármálaráðherra að hann beiti sér fyrir því að ráðnir verði 20 manns af atvinnuleysisskrá háskólamanna; lögfræðingar, viðskiptafræðingar, til þess að efla innheimtu tollstjóra. Ég skal veðja við hæstv. ráðherra að kostnaður við þann mannafla mun skila sér tífalt. Þetta getur líka verið átaksverkefni. Ef menn telja að það sé ekki árangur til langframa er hægt að hafa þetta tímabundið átak. (Gripið fram í.) — Einn poka af súkkulaðirúsínum. [Hlátur í þingsal.]

Ég efast ekki um að svona ráðstöfun gagnist bæði ríkissjóði og vinni á því langvinna atvinnuleysi sem verið hefur meðal háskólamanna. Ég endurtek áskorun mína til hæstv. ráðherra í þessu efni.