148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

tollgæslumál.

[11:45]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir umræðuna. Eins og fram hefur komið hefur álag á tollgæslu aukist verulega á síðustu árum. Þar nægir að nefna fer- eða fimmföldun ferðamanna á síðasta áratug. En það eru vaxtaverkir sem við finnum fyrir í öllu samfélaginu. Við heyrum sömu söguna frá lögreglunni, frá Vegagerðinni, heilbrigðiskerfinu, allir innviðir eru þandir til hins ýtrasta til að bregðast við þeim svakalega ferðamannastraumi sem hefur komið á síðustu árum.

Maður veltir dálítið fyrir sér hvernig standi á því að þrátt fyrir að við séum búin að bæta við tollvörðum, eins og kom fram í máli ráðherrans, gangi okkur svona hægt að bregðast við þessum breytingum. Það er eitthvað sem við mættum skoða í víðara samhengi, hvernig hið opinbera getur brugðist við óvæntum aðstæðum og dramatískri þróun á samfélaginu án þess að það taki heilan áratug að komast á rekspöl.

Fyrir okkur vini ríkissjóðs er tollstjóri sérstaklega góð stofnun því í gegnum hann fara mestallar tekjur ríkisins. Það er þess vegna mikið hagsmunamál að eftirlitið sé öflugt og eins og hv. þm. Helga Vala Helgadóttir nefndi þjónar það ekki hagsmunum almennings að veikja þetta eftirlit.

Vegna þess að ég er að falla á tíma verð ég að nefna að sérstaklega ber að þakka málshefjanda fyrir að tala máli tollstjórans því hann virðist einhverra hluta vegna vera það embætti sem er hvað duglegast að bera harm sinn í hljóði. Ég man ekki eftir að hann mæti fyrir fjárlaganefnd og biðji um aukið fé eða hvað það er, (Forseti hringir.) en á sama tíma er hann ein af fyrirmyndarstofnunum ríkisins, sem birtist m.a. í því (Forseti hringir.) að hann var tilraunastofnun í innleiðingu á jafnlaunastaðli. Hann leggur sig fram um framþróun í sínum störfum.