148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

tollgæslumál.

[11:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka upphafsmanni þessarar umræðu. Í ræðu hv. þingmanns komu fram áhugaverðar tölur sem ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki heyrt áður enda kannski ekki mál sem ég hef sökkt mér í sérstaklega.

Mér finnst það koma oft upp, kannski ekki oft en alla vega af og til, að það er frekar augljóst sóknarfæri með því að setja meiri peninga í eitthvað. Þetta virðist vera mjög skýrt dæmi um það miðað við það sem kemur fram í ræðum allra sem þekkja betur til en ég, þar á meðal hjá hv. upphafsmanni Þorsteini Sæmundssyni og hæstv. fjármálaráðherra. Ég verð einnig að minna á að þetta kemur reglulega upp í sambandi við ríkisskattstjóra; við erum ekki að ræða það embætti hér en þar er sambærilegt atriði til staðar, sem er það að það fyrsta sem fer, ef ekki er nóg fjármagn, er eftirlitið.

Þegar ekki er nógu vel staðið að fjármögnun slíkra stofnana eru auknar tekjur það fyrsta sem fer. Að mínu mati getum við ekki endilega hugsað um þessar stofnanir þannig að fjármagnið rétt dugi. Við verðum að hugsa hvort við séum að glata fé með því að fjármagna þær ekki hæfilega mikið. Þetta er aðeins öðruvísi spurning en sú hvort Tryggingastofnun ríkisins hafi nóg eða lögreglan eða eitthvað því um líkt; lögreglan er kannski slæmt dæmi, ég veit það ekki.

En mér finnst við þurfa að hugsa fjárveitingar og mannafla svona stofnana aðeins öðruvísi en við gerum venjulega. Ef við sjáum það fyrir að með fjölgun starfsfólks fáum við meira í ríkiskassann af gjöldum sem við höfum ákveðið að taka eigum við auðvitað að gera það. Ég held að ástæðan fyrir því að ekki gerist jafn mikið og maður myndi halda sé sú að við erum að hugsa fjármögnun þessara stofnana á sama hátt og stofnana sem lúta ekki sömu lögmálum hvað varðar tekjuöflun ríkisins.