148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

tollgæslumál.

[11:55]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka málshefjanda fyrir að vekja áhuga okkar á málefnum tollsins. Hann hefur ákveðna línu sem flestir hér hafa víst tekið undir um að herða þurfi tökin og auka eftirlit. Það er línan. Það virðist vera gegnumgangandi lína hjá flestum þeim sem hafa tekið til máls hér í salnum. Miðað við það mætti halda að það væri það sem allir Íslendingar sammæltust um, meiri og öflugri tollgæslu, meiri afskipti tollsins af lífi þeirra væri það sem myndi auka hamingju þeirra í hinu daglega lífi. Ég er ekki alveg viss um að það sé endilega tilfellið. Ég er t.d. hluti af Facebook-hóp sem heitir Sögur af tollinum. Þar má stundum lesa örlítið öðruvísi nálgun á þessi mál en hér hafa verið sett. Þar er fólk oft að lýsa yfir ákveðnum áhyggjum og ákveðnum vandamálum sem fylgja kannski of miklu eftirliti, stundum fáránlegu eftirliti, á litlum póstsendingum sem berast til landsins.

Því fylgir nefnilega oft það og menn hafa velt fyrir sér hvers vegna það gerist ekki endilega að stjórnsýslan batni við það að fjölga fólki í henni. Stundum er það þannig. Stundum er það ekki endilega þannig að fleiri embættismenn kalli á það að allt batni. Stundum gerist einmitt hið þveröfuga. Auðvitað eru margir þættir í þessu, ég ætla ekki að impra á þeim öllum, en ég held að það sé ekki endilega svo, eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson heldur fram, að það sé sjálfkrafa þannig að ef við setjum meiri pening í eftirlit muni hann skila sér allur til baka.

Ég held að þegar við erum komin á þennan stað í hugmyndafræðinni þá er oft um það að ræða að við nálgumst þetta ekki rétt, vegna þess að flestir vilja fara að lögum og vilja borga gjöld sín rétt. Ef við förum að grípa til þess að beita eftirliti einungis til að innheimta gjöldin þá á að einfalda hlutina, oftast miklu fyrr í ferlinu.

Ég held að besta leiðin væri reyndar ef Ísland myndi með einhverjum hætti fá aðild að stóru tollabandalagi sem væri nálægt okkur. Þá gætum við t.d. fengið fullt af póstsendingum hingað án þess að ganga í gegnum ákveðið erfitt fyrirkomulag.

Mér dettur eitt slíkt í hug, sem er land töluvert nálægt, (Forseti hringir.) þar er hálfur milljarður manna, en ég ætla ekki að færa rök fyrir því að ganga þangað inn einungis í þessari ræðu, lengri tíma þarf til þess.