148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

tollgæslumál.

[11:57]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu. Hún er mjög mikilvæg. Ég vil beina máli mínu fyrst að stöðu tollgæslumála á Keflavíkurflugvelli.

Fyrir tíu árum voru farþegar sem fóru um flugvöllinn ein og hálf milljón. Í dag fara um 10 milljónir farþega um völlinn. Flogið er til 15 landa og áfangastaðirnir 100.

Það gefur augaleið að þessi gífurlega aukning sem átt hefur sér stað í farþegafjölda gerir það að verkum að allt sem viðkemur tolleftirliti er umfangsmeira og tímafrekara. Þetta kallar á aukinn mannafla, ekki síst vegna greiningarvinnu sem er mjög mikilvæg í starfi tollgæslunnar. Vinna við farþegalista er orðin mjög tímafrek og eins og kom fram er ekki hægt að fara yfir alla lista vegna manneklu. Þetta er mjög bagalegt, auk þess þarf að skerpa á reglum sem skylda flugfélög til að láta af hendi farþegalista, en misbrestur hefur orðið á því.

Vöxtur í frakt og hraðsendingum hefur að sama skapi verið mjög mikill á fáeinum árum. Árið 2013 komu um 5.000 sendingar á mánuði. Í dag eru hraðsendingarnar um 5.000 á viku og í almennum sendingum eru þær komnar í 8.000–9.000 á viku. Skiljanlega er aðeins hægt að skoða brot af þessum sendingum og mikilvægt að auka samstarf við hraðsendingarfyrirtækin í þeim efnum.

Mikil aukning í farþegafjölda eins og áður hefur verið nefnt kallar á aukið húsnæði fyrir tollgæsluna. Það húsnæði sem tollgæslan á Keflavíkurflugvelli hefur yfir að ráða í dag er minna en var fyrir tíu árum. Mikilvægt er að tryggja að tollurinn fái það húsnæði sem hann þarf í fyrirhuguðum stækkun á flugstöðinni.

Í flugstöðinni eru starfræktir á vegum tollgæslunnar fíkniefnahundar. Þeim þyrfti einnig að fjölga. Fíkniefnahundar hafa mikið forvarnagildi. Það vantar hins vegar stefnu í hundamálum, þá sérstaklega er varðar persónueftirlit, en þetta er mikilvægur þáttur í tolleftirliti.

Ég vil síðan að lokum minnast á starfsmannamálin. Endurmenntun tollvarða er mjög mikilvæg. Í því sambandi þarf að auka samstarf erlendis hvað menntun varðar.

Að lokum, herra forseti. Höfum það í huga að 1% bætt innheimta hjá tollinum skilar 5 milljörðum í ríkissjóð.