148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

tollgæslumál.

[11:59]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir að hefja þessa umræðu. Ég held að margt sé hægt að gera til að auka skilvirkni og bæta starf tollsins, sem hefur samt staðið sig vel á miklum vaxtartíma. Má þar til dæmis nefna aukið samstarf, skipulag og þróun og að hægt væri að nota tæknina betur. Við þurfum líka að huga að því hvort hér séu lög og reglur sem hægt væri að skoða til að liðka enn frekar fyrir. Það væri gaman ef hæstv. ráðherra hefði upplýsingar um hvort hafi létt á tollinum. Og ef ekki, hvað hefur þá verið gert? Hér hafa tolla- og vörugjöld verið afnumin í stórum stíl. Það hlýtur að hafa breytt þessu eitthvað. Að einhverju leyti jókst innflutningurinn við það þannig að vel má vera að það hafi vegið upp á móti.

En samstarfið við löggæsluna er mikilvægast. Ég held að við ættum að skoða stórtækar skipulagsbreytingar, setja á fót landamæralöggæslu og auka þannig enn betur samstarf tollsins og lögreglunnar. Ég vil taka eitt atriði sérstaklega út úr sem áður hefur verið minnst á hér í dag, þ.e. fíkniefnahunda. Ég skora á tollyfirvöld að hafa um það samstarf við lögregluna og geng svo langt að nefna hér samstarf við lögregluembættið á Norðurlandi vestra um það hvernig hægt væri að samnýta og byggja upp hina mikilvægu starfsemi hjá lögreglu-, tolla- og fangelsismálayfirvöldum.

Varðandi hraðsendingarnar og fjöldasendingarnar held ég að enn sé pottur brotinn varðandi það að nýta tæknina og sjálfvirknina í því eftirliti. Hvernig er hægt að breyta því. Við þurfum líka að vita hvort einhverjar lágmarksfjárhæðir þurfi að hækka. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt til að hraðsendingar standi undir nafni sem slíkar, að gömul vinnubrögð í tollafgreiðslu tefji ekki fyrir.