148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

tollgæslumál.

[12:02]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Mig langar að byrja á að þakka málshefjanda fyrir þessa mikilvægu umræðu. Það er augljóst að tollgæslan og auðvitað öll löggæsla er okkur öllum mikilvæg. Ég veit ekki hvort allir gera sér grein fyrir hversu víðtæk verkefni tollvarða eru en það hefur svo sem verið farið ágætlega yfir það hér. Það er auðvitað ekki eingöngu að passa upp á að við Íslendingar tökum ekki of mikið af vörum með okkur í gegnum tollhliðið í Keflavík heldur er það einmitt að tryggja ríkinu stóran hluta tekna sinna og að auki að leita að fíkniefnum, vopnum, lyfjum, fölsuðum varningi og fleira mætti nefna.

Í því samhengi má nefna að oft gleymist að það eru fleiri gáttir inn í landið en einungis í Keflavík. Þannig má nefna sérstaklega, eins og hv. þm. Þórunn Egilsdóttir kom inn á, tollgæslu í tengslum við komu Norrænu til Seyðisfjarðar, sem mikilvægt er að styrkja enn frekar.

Þó að auðvelt sé að segja að við þurfum ekkert að hafa of miklar áhyggjur af tollgæslumálum á Íslandi því að við búum á eyju og því sé tiltölulega einfalt að vernda okkur, er augljóst að með auknum fjölda ferðamanna og aukinni umferð til landsins er sannarlega ástæða til að efla og tryggja öfluga löggæslu og tollgæslu í landinu. Þar hlýt ég, eins og fleiri hv. þingmenn hafa komið inn á, að nefna sérstaklega mikilvægi þess að tollgæsla og lögregla hafi á að skipa vel þjálfuðum og viðurkenndum fíkniefnahundum.

Mig langar því að nýta þetta tækifæri og spyrja ráðherra hreinlega hvort ekki standi til að tryggja aukið fjármagn til þjálfunar og eflingar hundasveita tollgæslu og löggæslu.