148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

tollgæslumál.

[12:10]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Þetta er áhugaverð umræða og þörf. Mig langar að taka undir með hæstv. fjármálaráðherra þegar hann gerði að umtalsefni stefnumótun og verkefni hjá tollstjóra þar sem væri verið að ræða um betri nýtingu fjármuna og að áhættugreina verkefni og fara yfir ferla. Ég held að þetta sé nauðsynlegt að gera. Ég vil líka hrósa tollstjóraembættinu fyrir að hafa verið að mér sýnist frekar framarlega í stefnumótun og ýmsum endurbótum í starfsemi sinni.

Varðandi tollgæslumálin sérstaklega held ég að sé mjög mikilvægt að tollgæslan eigi mikið og náið samstarf við systurstofnanir sínar í umheiminum, ekki síst í Evrópu. Ég vil líka benda á að tollstjóri er náttúrlega innheimtumaður ríkisins og hefur mjög viðamikil verkefni þar. Við erum með innheimtulöggjöf í landinu og nefna má að samkvæmt skýrslu sem samstarfsvettvangur um aukna hagsæld gaf út, um tillögur um breytingar í ýmsum skattamálum, að innheimtudagar tollstjóra eru 269 talsins á árinu. Þar eru hugmyndir um að fækka þeim niður í tólf. Ég held að það væri áhugavert. Og jafnvel taka upp greiðsludreifingu í tengslum við það. Ég held að það sé mjög góð ábending um að spara póstburðargjöld og yfirleitt kostnað allra sem að koma.

Að síðustu vil ég nefna smásendingar og umstang í kringum þær. Ég held að lágmarksupphæð til að falla undir það að fá að renna í gegn sé 2.000 kr. Það sjá allir að það eru ekki mjög verðmætar vörur. Ég held að hækka mætti þetta takmark verulega og að síðustu mætti benda á hvað það yrði mikið hagræði í kringum innflutning af ýmsu tagi að við myndum spyrja Evrópusambandið hvort við gætum ekki að minnsta kosti orðið aðilar að virðisaukaskattskerfi (Forseti hringir.) þeirra og tekið upp sameiginlegt kerfi um utanumhald um virðisaukaskatt innan Evrópska efnahagssvæðisins hvað okkur varðar.