148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

tollgæslumál.

[12:13]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og margháttaða hvatningu sem henni hefur fylgt, bæði í orðum og föstu formi. Ég þakka undirtektir ráðherra við því sem hér hefur verið talað um. Ég heyri góðan hug ráðherra til málaflokksins.

Embætti tollstjóra er gríðarlega vel rekið embætti, hefur alltaf verið og er til fyrirmyndar. Það hefur alltaf aðlagað sig að þeim aðstæðum sem eru uppi hverju sinni. Það breytir ekki því að einmitt líka þess vegna ættum við að styðja við það embætti eins vel og kostur er.

Ég geri mér alveg grein fyrir að það er hárrétt sem hæstv. fjármálaráðherra sagði, að innheimta er í sjálfu sér með ágætum. Auðvitað fer hún eftir efnahagslegum aðstæðum hverju sinni. En engu að síður árétta ég að hvert eitt prósentustig er dýrmætt þar. Og einnig þyrftum við hugsanlega að huga að því hvort tollstjóri gæti fengið auknar heimildir til samninga við fólk sem er jafnvel í erfiðleikum með að standa skil á sínum gjöldum o.s.frv. Það er atriði sem við gætum hugsanlega leiðrétt hér, sem gæti orðið bæði ríkissjóði og þeim aðilum sem um ræðir til heilla.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði að gert væri ráð fyrir verulega auknum fjármunum í fjármálaáætlun. Það gleður mig. Ég hefði bara kosið að fjármálaráðherra legði hana fram núna þannig að við gætum hreinlega sannfærst um það frá fyrstu hendi. En mér skilst að það sé einhver töf á því. En ef þetta er farið að liggja fyrir svona í grundvallaratriðum er væntanlega ekki mikið verk eftir og ég hlakka til að ráðherra taki á sig rögg og komi fram með áætlunina.

Að síðustu: Jú, sagt var að tæknibúnaður sé viðvarandi verkefni. Það er alveg rétt. En það sem ég vildi draga fram er að slíkur tæknibúnaður er gríðarlega dýr og þess vegna þarf að vera massíf áætlun um hvernig menn vilja (Forseti hringir.) endurnýja hann og líka vegna þess að tækjabúnaður tekur örum framförum og við þurfum að vera með besta tæknibúnað hverju sinni.

Að lokum vil ég ítreka það sem ég sagði áðan. Embætti tollstjóra er gríðarlega vel rekið embætti, vel mannað og menn vinna þar af miklum dugnaði og ákafa. Takk kærlega fyrir þetta.