148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

tollgæslumál.

[12:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við höfum í þessari umræðu komið inn á marga þætti tollstjóraembættisins á Íslandi sem eru sífellt að breytast. Hér hefur verið minnst á það að sendingum vegna netverslunar hefur stórfjölgað og ég held að við höfum síst ofmetið þá breytingu en það hefur í raun og veru orðið algjör bylting í viðskiptaháttum með netverslun og þekkja það flestar fjölskyldur í landinu hvernig netverslun er orðin eins og sjálfsagður hluti tilverunnar hjá yngri kynslóðinni sérstaklega og allt hefur það áhrif á magn sendinga sem koma til landsins. Þetta er eitt.

Annað eru ferðamennirnir, þriðja eru fíkniefnin sem hafa líka komið hér á dagskrá. Svo er það innheimtuþátturinn og tæknin, alþjóðasamstarfið, þetta eru allt saman lykilþættir í starfsemi tollstjóra sem hefur eins og hér hefur komið fram staðið sig vel í að breyta starfsháttum í takt við breytta tíma.

Það hefur verið spurt um einstaka þætti úr starfseminni eins og hvað standi fyrir dyrum varðandi þjálfun fíkniefnahunda eða kaupa á tæknibúnaði og annað þess háttar. Ég verð bara að vísa til þeirrar stefnumörkunar sem fer fram hjá tollstjóra um þau mál. Við höfum átt samskipti sem snúa að þáttum samstarfs lögreglu og tollsins og þess vegna landamæravörslu og tolls. Það er ekki síst þar sem við þurfum að sýna aukinn stuðning í komandi ríkisfjármálaáætlun vegna þess að bæði alþjóðlegar kröfur og staðan á landamærum okkar kalla á það. Mér finnst þetta hafa verið uppbyggileg umræða og brýn og þakka fyrir það.