148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

móttaka skemmtiferðaskipa.

[12:18]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fyrir að taka þátt í þessari umræðu með mér. Ég hef væntingar til þess að hér muni skapast áhugaverð og vonandi gagnleg umræða um móttöku skemmtiferðaskipa við Íslandsstrendur.

Á síðustu árum hefur verið mikill vöxtur í íslenskri ferðaþjónustu, staðreynd sem hefur farið fram hjá fáum. Einna mestur vöxtur hefur þó verið í tengslum við komu skemmtiferðaskipa til landsins en frá árinu 1989 hefur farþegum með skemmtiferðaskipum sem heimsækja Ísland fjölgað úr 7.010 í 115.565 á árinu 2017. Áætlað er að um 128.000 skemmtiferðaskipafarþegar sæki Ísland heim á þessu ári og má til gamans geta að gert er ráð fyrir móttöku 37 skipa til Grímseyjar næsta sumar.

Fjölgun skemmtiferðaskipa hefur eðlilega fylgt vöxtur í þjónustu við þau en sömuleiðis aukið álag á þá staði sem farþegarnir heimsækja. Oft eru þetta fjölsóttir staðir fyrir og má segja að innviðir séu hreinlega sprengdir á stórum skipadögum. Getur það valdið álagi á ákveðnum áfangastöðum auk togstreitu milli ólíkra tegunda ferðaþjónustu.

Þá getur verið töluvert álag á lítil samfélög að fá jafnvel til sín skip þar sem farþegafjöldinn er meiri en íbúafjöldi staðarins. Einnig verð ég að nefna dæmi þess að skip séu jafnvel að hleypa farþegum í land utan hafna og í sumum tilfellum inn á viðkvæm svæði.

Raddir um mengun vegna skemmtiferðaskipa hafa eðlilega verið háværar en þrátt fyrir að öllum skipum við bryggju sé skylt að nýta sér rafmagn úr landi í stað skipaeldsneytis ef mögulegt er, er staðan einfaldlega þannig að dreifikerfi raforku á Íslandi er því miður vanbúið til að veita slíka þjónustu í íslenskum höfnum og er ljóst að hafnirnar eiga að óbreyttu enga möguleika á að fjármagna landtengingar stórra skipa án verulegrar aðkomu ríkisins, nokkuð sem við hljótum að skoða alvarlega.

Mig langar í þessu samhengi að vekja athygli á því sem Akureyrarhöfn hefur verið að gera til að vega upp á móti þessu en höfnin stendur nú fyrir skógræktarátaki í samstarfi við Akureyrarbæ, Vistorku og Skógræktarfélag Eyfirðinga þar sem greitt er fyrir 2.000 tré á ári vegna þeirra skemmtiferðaskipa sem hafa viðdvöl í bænum auk þess sem farþegum skipanna býðst að greiða fyrir sinn hlut í losuninni. Ég veit að fleiri hafnir hafa verið að skoða þessa leið.

Það er ýmislegt fleira jákvætt. Í könnun sem Cruise Iceland gerði árið 2014 kom í ljós að meðaleyðsla farþega vegna átta klukkustunda stopps var 79 evrur en reikna má með að á árinu 2017 hafi heimsóknir skemmtiferðaskipa skilið eftir sig á milli 7–8 milljarða hér á landi og skapað um 300 heilsársstörf. Ríkið fær skatttekjur í formi vitagjalda og tollafgreiðslugjalda, hafnirnar af hafnar- og þjónustugjöldum, umboðsmenn þjónusta skipin og ferðaþjónustuaðilar skipuleggja ferðir og rútufyrirtæki og ferðaþjónustuaðilar koma ferðamönnum á leiðarenda. Margt fleira mætti nefna.

Herra forseti. Það er að mörgu að huga varðandi uppbyggingu ferðaþjónustu á Íslandi en ég held að ástæða sé til að gefa móttöku skemmtiferðaskipa sérstakan gaum enda fjölmörg tækifæri sem felast í móttöku þeirra en einnig ýmislegt sem við getum lært af reynslu annarra landa sem við þurfum ef til vill að varast. Nýverið voru kynntar niðurstöður nýrrar rannsóknar frá Rannsóknarmiðstöð ferðamála um móttöku skemmtiferðaskipa við Norðurland. Í skýrslunni kemur fram að komum skipa fylgja ýmsar áskoranir og er ljóst að bæði ríki og sveitarfélög þurfa að koma að. Niðurstöðurnar sýna að móttöku- og þjónustuaðilar kalla eftir skýrari umgjörð og frekari leiðbeiningum um umferð skipanna og ljóst að setja þarf fram skýrari stefnumörkun og regluverk um heimsóknir skemmtiferðaskipa og þjónustu við farþega þeirra hér á landi.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort einhver undirbúningur sé í gangi í ráðuneytinu að gerð regluverks um heimsóknir þessara skipa og þjónustu við farþega þeirra hér á landi og sömuleiðis hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir því að settar verði reglur varðandi útblástur skemmtiferðaskipa sem heimsækja Ísland eða gerðar verði kröfur um landtengingar þegar skipin liggja við bryggju og eins og ég kom inn á áðan hvort við þurfum ekki að aðstoða hafnirnar til að gera þeim þetta kleift.

Mig langar reyndar að koma að í því sambandi, fyrst ég hef örstuttan tíma í viðbót, að það eru ákveðnar hugmyndir um að nýta annars konar orkugjafa en endilega vatnsaflið, t.d. mætti nota metangas til að knýja einhvers konar ljósavélar. Það eru alls konar hugmyndir. Ég held að það séu nefnilega fólgin tækifæri fyrir Ísland í að vera svolítið framarlega á þessu sviði.