148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

móttaka skemmtiferðaskipa.

[12:30]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka frummælanda fyrir þessa góðu umræðu. Komum skemmtiferðaskipa til landsins hefur fjölgað mikið á undanförnum árum í takt við fjölgun ferðamanna almennt til landsins. Þessari þróun fylgja tækifæri jafnt sem áskoranir og það er vissulega mikilvægt að ríki og sveitarfélög og allir aðrir hagsmunaaðilar komi að því að tryggja þá innviðauppbyggingu og framtíðarskipan í þessum málaflokki sem þarf að verða.

Vöxturinn og koma ferðafólks af skemmtiferðaskipum þarf að vera í sem bestri sátt við samfélagið og nýta þarf sem best möguleikana á atvinnusköpun og fjölgun afleiddra starfa. Þjónusta við skemmtiferðaskip er mikilvæg tekjulind margra hafna og hefur verið mótvægi við tekjumissi vegna t.d. minnkandi aflaheimilda og bætir stöðu þeirra hafnarsjóða sem njóta þess að skemmtiferðaskip koma í þeirra höfn. Sem dæmi má nefna að 110 skemmtiferðaskip hafa boðað komu sína til Ísafjarðar í sumar og það er löngu orðið tímabært að bæta þar hafnaraðstöðuna og uppfylla lágmarksöryggiskröfur. Þar þarf t.d. að fá öflugri dráttarbát til að þjónusta skemmtiferðaskipin. Það sama má segja um fleiri hafnir eins og t.d. á Grundarfirði þar sem verið er að reyna að auka tekjur hafnarinnar.

Hafnir eru skilgreindar sem hluti af samgöngumannvirkjum og hafa allt of lengi verið vanfjármagnaðar og því er mikilvægt að samgönguáætlun endurspegli þá uppsöfnuðu þörf sem er víða um land.

Ég tek undir það að mikilvægt er að ríki og sveitarfélög og aðrir hagsmunaaðilar komi að öflugri stefnumótun og regluverk sé byggt um þessa grein. Vöxturinn hefur verið hraður og þarf að haldast í hendur við atvinnusköpunina og uppbygginguna og á sama tíma verðum við að gæta að umgengni ferðamanna við náttúru landsins. Við þurfum að rafvæða hafnirnar, byggja greinina upp til framtíðar með sjálfbærni að leiðarljósi.