148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

móttaka skemmtiferðaskipa.

[12:40]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Herra forseti. Ég las grein um daginn. Inntakið í greininni var eitthvað á þá leið að það væri vissulega gaman hve margir ferðamenn væru komnir til landsins, að þeir glæddu landið lífi og sköpuðu tekjur, en væri nú ekki komið að þolmörkum? Þessa grein las ég á timarit.is, hún var frá 1960. Þá voru ferðamenn á Íslandi álíka margir og nefnt var hér að kæmu í heimsókn til Ísafjarðar á einum degi. Við sjáum kannski hvað þetta er afstætt. Það verður gaman að velta því fyrir sér hvort við munum minnast þeirrar umræðu sem hér á sér stað eins og síldarævintýris einn daginn, eða hvort það verði þveröfugt, við munum velta fyrir okkur af hverju við höfum talið þennan fjölda sem nú er vera svo mikinn. Það á eftir að koma í ljós.

Það er venja í svona sérstökum umræðum að þingmenn komi og lýsi yfir miklum áhuga og yfirgripsmikilli þekkingu á málefninu. Ég ætla ekki að gera mér upp alla vega hið síðarnefnda, en ég þakka þingmanninum fyrir að benda mér á þetta málefni og ég las þá skýrslu sem vitnað var til í þeim gögnum sem voru send út frá Rannsóknarmiðstöð ferðamála. Þar var t.d. eitt sem vakti sérstakan áhuga minn, það var hvaða eini þáttur það væri sem réði því hvort ferðaþjónustufyrirtæki færu með ferðamenn og skemmtiferðaskip á tiltekinn stað, það væri gert í kringum einn hlut. Það voru klósett. Það er sem sagt þáttur númer eitt sem ræður því hvort það sé farið með skipulagða ferð á einn stað en ekki annan, sem er nú dálítið sláandi.

Annað sem vakti athygli mína í þessari skýrslu er að það er komið upp dálítið mikið kerfi í kringum það hver það er sem skipuleggur ferðirnar, hver það er sem bókar, talsvert yfirgripsmeira en maður býst við. Þetta hefur byggst upp kannski svolítið mikið fyrir tilstuðlan markaðarins. Þetta er eitthvað sem ég hef velt stundum fyrir mér, því að það er oft kallað eftir heildstæðri stefnumótun og hver ætlar að vera á móti henni. Stundum geta hlutir gerst án þess að ríkisstjórn komi nálægt.

Eina sem ég bið um í framhaldinu þegar verður farið í það að búa til regluverk er að það verði það alþjóðlegt að hamli ekki (Forseti hringir.) þeim góða iðnaði sem hefur byggst hér upp.