148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

móttaka skemmtiferðaskipa.

[12:45]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa fínu umræðu sem hv. þingmaður kemur með inn í þingið. Það er hluti af heildarsamhenginu þegar maður ræðir ferðaþjónustu í landinu. Það er gríðarlega mikilvægt að við séum með alvörustefnumótun um hvað við ætlum okkur að gera varðandi þessa grein. Þegar við tölum um ferðaþjónustu á Íslandi undanfarin ár hefur athyglin mest verið á umhverfislegum þáttum, að einhverju leyti þeim efnahagslegu. Ég hef oft talað um að töluvert vanti upp á umræðuna um efnahagslega þáttinn. En samfélagslegi þátturinn er nokkuð sem taka þarf á með miklu markvissari hætti og við sjáum núna vítt og breitt að farið er að reyna á innviði sem snúa að íbúum landsins. Við þurfum að ræða það betur.

Langflestir farþegar koma með skemmtiferðaskipunum til Reykjavíkur, Akureyrar og Ísafjarðar. Hlutfallslega, miðað við stærð sveitarfélaga á viðkomandi stöðum, er farþegafjöldi skemmtiferðaskipanna mest fimmtíufaldur Ísafjarðarbær á hverju ári. Í Reykjavík er fjöldinn á pari við íbúafjöldann og á Akureyri er það kannski sexfaldur íbúafjöldi bæjarins. Það eru stærðirnar. Við heyrum mest frá Ísafirði í dag, þar er mest kvartað yfir þessum þáttum.

Landtengingar hafa mikið verið ræddar. Litlu skipin taka 2–3 megavött. Það er mögulegt að koma því á, en stóru skipin þurfa 10, 15 eða jafnvel fleiri megavött. Til dæmis ef það er stórt skip í höfn á Akureyri er rafmagnsnotkunin svipuð og hjá heimilum og fyrirtækjum í almennum rekstri í bænum, bara til að setja það í samhengi.

Þetta er stærsta atvinnugrein í heimi. Hún er sú stærsta á Íslandi. Það væri satt að segja skemmtilegt að fá dýpri umræðu. Ég sé að tvær mínúturnar eru búnar og ég byrjaði aldrei. [Hlátur í þingsal.] Þetta er rosalegt. Það væri áhugavert að taka betri umræðu um þessi mál. Staðan á Íslandi er orðin þannig að fátt skiptir okkur meira máli.