148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

móttaka skemmtiferðaskipa.

[12:52]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þann 12. desember sl. sendi Grundarfjarðarbær umsögn um fjárlög 2018. Þar var beðið um að ríkið stæði við samþykkta samgönguáætlun vegna hafnarframkvæmda. Umsögnin vísaði í mat sérfræðinga um að fyrsti hluti framkvæmdanna væri mjög mikilvægur þar sem ákveðinn tíma þyrfti áður en hægt væri að halda áfram, talað var um að púði þyrfti að síga.

Þá var óskað eftir þeim 110 millj. kr. sem var hlutur ríkisins í framkvæmdinni til þess að uppfylla samgönguáætlun. En við vitum öll hérna inni að samgönguáætlun var ekki fjármögnuð. Þó að fjárveitingavaldið sé vissulega hjá Alþingi og ábyrgðin á samþykkt fjárlaga sé þar, er það líka á ábyrgð stjórnvalda að framfylgja áætlunum og ályktunum Alþingis. Samgönguáætlun er þannig áætlun og þegar vanfjármögnuð samgönguáætlun kom frá stjórnvöldum náðist ekki samstaða á þingi um að fjármagna samgönguáætlun.

Af hverju er ég að tala um þetta í sérstökum umræðum um skemmtiferðaskip? Jú, það hefur kannski komið fram áður í umræðunni að Grundarfjörður kemur þarna inn að vissu leyti. Eins og einhverjir muna bárust fréttir af því í febrúar sl. að ganga myndi erfiðlega að taka á móti fleiri skemmtiferðaskipum en gert var ráð fyrir að gætu lagst að bryggju í Grundarfirði vegna stækkunar hafnarinnar. Áskorunin við fjölgun skemmtiferðaskipa er því ekki bara fjölgun þeirra, álag á raforkukerfi, álag á ferðaþjónustuna eins og hún er núna og á vegina o.s.frv., heldur einnig það að ekki er staðið við skipulagða stækkun samkvæmt áætlun. Gerð var áætlun um að höfnin yrði tilbúin á þessum tíma og þá gerði bærinn áætlun um móttöku fleiri skipa. Ekki var staðið við það og það er líka vandamál sem við þurfum að huga að. Þannig að við þurfum að huga að hvoru tveggja, að taka við þeim sem koma og standa við þær áætlanir sem við gerum til að við getum gert skipulagðar áætlanir um hversu mörgum við ætlum að taka við.