148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

móttaka skemmtiferðaskipa.

[12:59]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég þakka hv. upphafsmanni og þingmanni, Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, fyrir að vekja máls á þessu efni. Það eru, eins og hefur komið fram hér, fjölmargir angar og endar á þessari umræðu um hin stóru skip sem koma í auknum mæli siglandi hingað til lands og eiga viðkomu í höfnum landsins, yfirleitt í skamman tíma á hverjum stað. Mér skilst að það séu um það bil 16 hafnir á Íslandi sem geta tekið við skipum, auðvitað mjög misstórum, og eru stærstu hafnirnar og þar sem flest skipin koma í Reykjavík og á Akureyri.

Samkvæmt því sem ég best veit komu til Reykjavíkur á síðasta ári um 130 þúsund farþegar með slíkum skipum og til Akureyrar um 110 þúsund manns. Þessum skipakomum mun væntanlega fjölga. Til dæmis reikna hafnaryfirvöld á Akureyri með því að frá því að hafa fengið 110 þúsund farþega árið 2017 verði þeir orðnir að minnsta kosti 150 þúsund árið 2019, bara á næsta ári. Þetta er mikil fjölgun og öllum þessum farþegum og skipum fylgir áhætta af ýmsu tagi. Hér hefur verið nefnt mengun, ágangur á land, aðgangur að rafmagni, hvernig þessu öllu er háttað. Ég held að það sé nú brýnast í þessum málaflokki að sjá til þess að grunnþörfum þessara farþegaskipa og farþega sé sinnt þegar fólk kemur á þessa staði. Lágmarksþjónusta, lágmarksheilbrigðisþjónusta, aðgangur að hreinlætisaðstöðu og öllu þessu, ég held að það sé mjög margt í þessu sem þarf að ráðast í strax og ekki endilega þurfi að bíða eftir stórri stefnumótun (Forseti hringir.) þótt hana vanti auðvitað sárlega í ferðaþjónustu á Íslandi, en það er margt sem hægt er að gera strax og þarf að gera.