148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

móttaka skemmtiferðaskipa.

[13:02]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka öllum þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í þessari góðu umræðu, og sérstaklega hæstv. ráðherra fyrir innlegg hennar. Ég fagna sérstaklega fréttum af skýrslu um þolmörk í ferðaþjónustu og hlakka mikið til að kynna mér efni hennar.

Þó að ég hafi, eins og aðrir þingmenn, dregið fram í fyrri ræðu ákveðin vandamál og ógnanir sem fylgt geta skemmtiferðaskipaiðnaðinum tel ég að tækifæri séu í áframhaldandi uppbyggingu skemmtiferðaskipaþjónustu á Íslandi. Hins vegar verðum við að vanda okkur. Til þess að við getum raunverulega nýtt okkur þau tækifæri er mikilvægt að ríki og sveitarfélög marki sér stefnu um móttöku skemmtiferðaskipa í samvinnu við hagsmunaaðila. Þannig tel ég að við getum best stutt við greinina. Ég tel mikilvægt að við bregðumst við mögulegum vandamálum áður en þolmörkum umhverfis og samfélags verður náð.

Í stuttu máli: Breytum ógn í tækifæri áður en að það verður óafturkræft vandamál og of stórt til þess að leysa það með ströngum reglum og slíku.

Eins og ég nefndi í lok ræðu minnar áðan höfum við Íslendingar tækifæri til að vera til fyrirmyndar þegar kemur að móttöku skemmtiferðaskipa á heiminum. Ég tel að við eigum sannarlega að vera það. Ég vek athygli forseta á að ég skildi eftir dálítinn aukatíma til að vega upp á móti þeim sem fóru fram úr tímanum áðan.