148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2017 um breytingu á II. viðauka og XVII. viðauka við EES-samninginn.

336. mál
[13:49]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Eins og sést styð ég málið en vildi þó halda til haga ákveðnum fyrirvara sem varðar það að framlengja hugverkaréttindi almennt. Hv. þm. Smári McCarthy bað um gögn þess efnis að það að framlengja slík einkaleyfi væri raunverulega til þess fallið að auka framboð og lækka verð. Hv. þingmaður fékk svar við því sem hann metur þannig að ekki sé sýnt fram á það. Við í Pírötum erum almennt frekar skeptísk þegar kemur að einkaleyfum og því um líkum takmörkunum á frelsi annarra, jafnvel þótt vissulega þekki margir hér allar rökræður í kringum ágæti einkaleyfa. En ég vildi halda þessum fyrirvara til haga.

Ekki eru allir Píratar sannfærðir um að það sé jákvætt að hafa þessi einkaleyfi eða að framlengja þau í það minnsta, en eins og sést greiði ég þó atkvæði með málinu.