148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[14:01]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég verð að segja að mér er mikill vandi á höndum þegar kemur að atkvæðagreiðslu um þetta mál, einfaldlega vegna þess að mér finnst það alveg frábær hugmynd að börn frá 16 ára aldri megi kjósa til sveitarstjórna. Mér finnst það býsna góð hugmynd. Ég er ekki sannfærð um að gera þurfi einhverjar aðrar breytingar á sama tíma, að færa þurfi einhver önnur borgaraleg réttindi til. En ég tek undir þau sjónarmið að þetta mál sé ansi seint fram komið í ljósi þess að mjög stutt er til sveitarstjórnarkosninga. Það eru sveitarfélögin sjálf sem bera ábyrgð á framkvæmd þeirra kosninga. Þau bera líka ábyrgð á grunnskólunum og fræðsluskyldunni. Mér þykir það þurfa ákveðinn undirbúning og samfélagslega umræðu að börn fái kosningarrétt fyrr. Ekki síst þarf að fara betur yfir lýðræðislega fræðslu sem er á hendi grunnskólanna. Þannig að ég mun styðja breytingartillögu með þessari hugmynd um að þessi lög taki gildi seinna.