148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[14:18]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Já, ég verð að taka undir með hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni og taka líka skýrt fram svona ákveðinn „tendens“ sem ég hef fundið fyrir hjá fólki sem vill tefja fyrir málum, það á allt í einu að fara að gera úttektir á hlutum og skoða þá „grundigt“ og taka þá fyrir og samræma verkferla og gera alls konar (Gripið fram í.) áður en við getum einu sinni farið að ímynda okkur að skoða einhvers konar breytingar, eins og hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson kom inn á hérna rétt áðan. Ég vil bara taka fyrir að við þurfum að skoða eitthvað, við erum með margvíslega aldursflokka varðandi það hvenær maður má gera hvað, m.a. áfengiskaupaaldurinn, og hvenær við megum kaupa sígarettur. Þetta hefur nú tekið ýmsum breytingum í gegnum tíðina og ég sé ekki hvað það hefur með lýðræðislegan rétt ungmenna að gera, þess þá heldur hvenær við megum kaupa okkur tóbak eða áfengi. Já, eða gifta okkur eða taka lán eða hvað svo sem það er. Hér er um rétt okkar að ræða til að hafa áhrif á hvernig samfélaginu okkar er stjórnað. Það hefur hallað á ungt fólk í íslensku samfélagi. Við búum við það að ungt fólk hefur það í fyrsta sinn verra en foreldrar þess. Það er bara kominn tími til að það geti (Forseti hringir.) haft áhrif á hvernig samfélaginu er stjórnað sjálfu sér til varnar.