148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[14:19]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég hef alltaf litið þannig á að kosningarréttinum fylgi mikil ábyrgð. Ef menn eru sammála mér um það verður það auðvitað að vera þannig að þeir sem eru 16 ára og eiga að fá kosningarrétt geti tekið ábyrgð á öðru í lífi sínu. Ég er alveg tilbúinn að fallast á að menn geti kosið 16 ára. En ég vil þá að fólk sé lögráða 16 ára. Það er langeðlilegast, þ.e. ef við teljum að kosningarréttinum fylgi einhver ábyrgð. Ef þetta eru bara á við einhverjar skoðanakannanir og það sé hluti af lýðræðinu getum við farið þessa leið. En menn hafa komið hér fram og sagt: Sveitarstjórnir hafa engan áhuga á þessu, það er flókið að framkvæma þetta. Norðmenn gerðu þetta með stuttum fyrirvara og niðurstaðan var slök, misheppnuð. Og svo er þetta bara mikil breyting, öfugt við það sem hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson (Forseti hringir.) segir. Þetta er nefnilega mikil breyting. Og ef við ætlum að breyta þessu í alþingiskosningum þurfum við að breyta stjórnarskrá.