148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[14:37]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég get tekið undir með mörgum sem hér hafa talað, ekki síst hæstv. forsætisráðherra: Við eigum að treysta unga fólkinu best fyrir eigin hagsmunum, þ.e. þar sem það getur haft áhrif á nærsamfélag sitt. Ég verð líka að taka undir með hv. þm. Loga Einarssyni varðandi ungmennaráðin. Við sem höfum setið í sveitarstjórnum höfum átt þátt í að koma á fót ungmennaráðum. Ég held að sambandið ætti nú frekar að einbeita sér að því að reyna að gera þau sambærilega virk og með sambærilega þjónustu því að þau hafa sum ekki ritara og ekki almennilegt aðgengi að stjórnsýslunni.

Helsta gagnrýni ungs fólks hefur verið sú að það er ekki haft með í ráðum, bara yfirleitt ekki. Við, miðaldra fólkið, tökum ekki unga fólkið með nema bara þegar okkur hentar. Þetta hefur verið gert áður með skömmum fyrirvara og þetta frumvarp hefur verið lagt fram áður. Þetta er vel framkvæmanlegt. Annað er hreinn og klár fyrirsláttur, að það þurfi að fresta þessu. Málið kom fram í fyrra. Það er ekkert nýtt í því og var meira að segja lagað það sem þá var bent á að þyrfti að laga. (Forseti hringir.) Dómsmálaráðuneytið gyrðir sig bara í brók og lagar það sem þarf að laga til þess að þetta sé framkvæmanlegt. Það er ekkert flókið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)