148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[14:38]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Þetta eru búnar að vera áhugaverðar umræður. Mér finnst ofboðslega furðulegur málflutningurinn hjá sumum. Talað er um að ekki sé hægt að fara í einhverjar smávægilegar betrumbætur án þess að laga allt kerfið. Er ekki einmitt skynsamlegt að taka smávægilegar breytingar í skrefum, fylgjast með hvernig gengur og breyta áfram eftir þörfum eftir því sem virkar best? (JÞÓ: Jú, eins og með stjórnarskrána.) Já, nákvæmlega, bara þegar það hentar.

En varðandi það að láta börnin í friði: Við erum ekki að fara að neyða börn til að taka þátt og kjósa. Við erum bara að gera það mögulegt að þeir sem hafa áhuga á því og vilja taka þátt geti gert það. Það er það sem við erum að gera. Ákvarðanir sem teknar eru núna hafa mestu áhrifin á þessa krakka, þessi börn. Þetta er framtíð þeirra sem við erum að taka ákvörðun um. Og það er ofboðslega furðulegt að standa hérna og segja að þau hafi ekki rétt til að taka þátt í þessari ákvörðunartöku um mikilvæg málefni sem hafa áhrif á líf þeirra til framtíðar.

Ég segi bara eins og kollegi minn hv. þm. Jón Þór Ólafsson: Fylgist bara með hverjir standa gegn þessum breytingum. Hverjir eru hræddir við að ungt fólk taki þátt?