148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[14:40]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Tímalínan í þessu máli er að þingfundur á morgun þarf að afgreiða þetta mál, annars erum við komin inn í páskaleyfi í tvær vikur og þá munu menn segja: Þá er þetta klárlega allt of skammur tími. Í gærkvöldi þegar þetta mál var til umræðu var í gangi mikil þingskapaleikfimi og var verið að reyna að tefja málið fram yfir miðnætti þannig að það myndi detta yfir á þennan dag. Ég skal fara betur yfir það seinna. Það er mjög áhugaverð saga. [Hlátur í þingsal.]

Staðan núna er sú að verið er að reyna að beita dómsmálaráðuneytinu fyrir sig, að ekki sé hægt að gera þetta á svo skömmum tíma. Ég fer þá fram á að gerð verði rannsókn á verklaginu hjá dómsmálaráðuneytinu (Gripið fram í.) ef það ætlar að stöðva þetta mál á þeim forsendum að það geti ekki gert þetta. Þá verður gerð rannsókn á því.

Og síðan er hitt. Þeir flokkar sem standa í vegi fyrir þessu máli verða að átta sig á einu: Þið græðið kannski einar kosningar, að unga fólkið kemur ekki inn sem myndi annars kjósa í þessum sveitarstjórnarkosningum, en þið tapið þá þessu sama fólki inn í framtíðina. Það er þessi tími sem hefur mest forspárgildi um það hvernig fólk kýs í framtíðinni. Hugsið málið betur. (Forseti hringir.) Klárum þetta.

(Forseti (SJS): Forseti vekur athygli á því að það á að beina orðum sínum til forseta og ekki ávarpa þingmenn í 2. persónu.)