148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[14:58]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég vil nota tækifærið við þessa umræðu til að vekja athygli hæstv. forseta á því að umhverfis- og samgöngunefnd afgreiddi frá sér mál í morgun sem snýr að þessum sveitarstjórnarkosningum og sveitarstjórnarstiginu. Það fjallar um að sveitarstjórnir eða sveitarfélög geti sjálf ákveðið fjölda sveitarstjórnarfulltrúa í sveitarstjórnarkosningum.

Ég kem hingað með þessa hvatningu vegna þess að ég hefði helst kosið að fá þetta mál á dagskrá í dag. Þannig finnst mér andinn vera hér í ákveðnu fólki, sem kom reyndar í veg fyrir það í morgun að við næðum að afgreiða það mál úr nefndinni. Þetta snýst bara um, svo ég vitni til samanburðar við orðræðu hæstv. forsætisráðherra, að gefa sveitarstjórnarfólki aukið vald, að færa lýðræðislegan rétt á sveitarstjórnarstigið.

Ég vona að málið komi sem fyrst inn í þingið, helst í dag eða í fyrramálið (Forseti hringir.) og að við getum afgreitt það samhliða, svona til þess að hlusta á samræmi í málflutningi fólks.