148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

393. mál
[15:56]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar og tek undir með hv. þingmanni að ég held að þetta sé gott fyrsta skref, en við þurfum alltaf að vera á tánum í þessum efnum. Ég hvet nefndina líka til þess að skoða sérstaklega hvort það séu ástæður til þess að ganga lengra í þessum efnum eða með hvaða hætti.

Það hafa ekki orðið efnislegar breytingar á þessu máli, en það hafa hins vegar orðið smávægilegar efnislegar breytingar á hinu málinu sem kemur hér á eftir. Ég taldi í ljósi þess að þetta er sitt hvort málið, þar af leiðandi sitt hvorrar þingnefndarinnar, og í ljósi þess að hitt málið hefur tekið breytingum, sem við komum inn á á eftir, heppilegt að þau kæmu saman inn til þingsins. Það skýrir kannski af hverju þetta mál kemur núna þrátt fyrir að ekki hafi orðið breytingar á því.

Varðandi það hvort efnisleg andstaða sé við málið innan ríkisstjórnarflokkanna þá get ég bara talað fyrir minn munn í því efni. Ég styð þetta mál að sjálfsögðu. Ég legg það fram. Málið er komið til þingsins. Það þýðir að það er farið í gegnum ríkisstjórn. Það er líka farið í gegnum þrjá ríkisstjórnarflokka og er komið hingað til þingsins. Það þýðir að það nýtur stuðnings ríkisstjórnarinnar. Ég get ekki svarað fyrir munn einstakra þingmanna, þeir verða að gera það sjálfir í atkvæðagreiðslu. Þar er auðvitað hver bundinn sinni sannfæringu. En ég mun styðja þetta mál og ég hef sannfæringu fyrir því að meiri hluti þings geri það og vel ríflegur meiri hluti. Ég vona að þetta svari spurningum hv. þingmanns.