148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

393. mál
[15:58]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherranum svarið. Væri ég hér lengur gætuð þið alveg treyst á minn stuðning í þessu máli, en það mun væntanlega ekki verða. Ég þori engu að síður að fullyrða að málið muni njóta stuðnings míns þingflokks.

Ég velti því fyrir mér og vona að ráðherrann sefi örlítið áhyggjur mínar því að hann notaði þau orð að hann myndi vilja að nefndin skoðaði málið gaumgæfilega. Nú þekki ég þingstörf ágætlega og það orðalag er stundum notað þegar menn vilja ekki endilega mál nái fram ganga. Ég vil bara að ráðherrann skýri hvað hann á við með þessu orðalagi sínu og hvort það sé ekki alveg ljóst að málið sé lagt fram í því skyni að verða samþykkt á þessu þingi.