148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

393. mál
[15:59]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv þingmanni fyrir stuðninginn í þetta mál og hver veit nema hv. þingmaður verði aftur inni hér sem varaþingmaður þegar málið kemur til endanlegrar afgreiðslu. Það veit enginn sína ævina fyrr en öll er.

Þegar ég sagði gaumgæfilega þá átti ég nú við í því samhengi að það væri kannski ástæða til þess að skoða gaumgæfilega þær athugasemdir sem hv. þingmaður gerði, að við ættum kannski að víkka út efni frumvarpsins. Frumvarpið eins og það kemur fram hér er lagt fram af fullum heilindum og með miklum stuðningi félags- og jafnréttismálaráðherra. En það er full ástæða til þess að nefndin endurskoði það kannski gaumgæfilega hvort það eigi að ganga lengra. Ég hvet hana til þess í því samhengi, en það er full alvara á bak við framlagningu þessa máls og ég vænti þess að það fái góða og skjóta meðferð en jafnframt gaumgæfilega.