148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

393. mál
[16:00]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við skoðum þessi tvö mál saman, bann við mismunun á vinnumarkaði og bann við mismunun á grundvelli kynþáttar eða þjóðernisuppruna — ég fer svolítið frjálslega með nöfnin á þessum frumvörpum en ég vona að hæstv. ráðherra skilji hvað ég á við.

Mig langaði, í kjölfar þess sem rætt var hér í fyrra andsvari, að ræða við ráðherra um það hvers vegna ekki var ákveðið að ganga lengra í því frumvarpi sem við ræðum hér, þ.e. að útvíkka gildissvið frumvarpsins til að það næði yfir þá mismunandi þætti sem löggjöfin um vinnumarkaðinn nær yfir. Ég ætla að leyfa mér að vitna í það frumvarp sem á að taka fyrir næst, þ.e. um gildissviðið og hvaða mismunabreytur það frumvarp snertir. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Lög þessi gilda um jafna meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu …“

Ég hef áhuga á að vita hvers vegna, sérstaklega í ljósi þess hversu lengi þetta mál hefur verið til meðferðar í ráðuneytinu, ekki var ákveðið að ganga skrefinu lengra og setja inn þessar mismunabreytur. Mér finnst að sjálfsögðu full ástæða til að setja þessar mismunabreytur, fötlun, skert starfsgeta, aldur, kynhneigð, kynvitund, kyntjáning eða kyneinkenni, inn í hina almennu mismunalöggjöf. Það er eitthvað sem löndin í kringum okkur hafa verið að gera, það er eitthvað sem við höfum almennt, í almennum úttektum um Ísland, verið gagnrýnd fyrir, þ.e. að við séum ekki með almenna mismunalöggjöf sem veitir einstaklingum kærurétt sé mismunað í þessum mismunandi þáttum.

Ég spyr: Hvers vegna ákvað hæstv. ráðherra ekki að ganga lengra og taka inn þessar mismunabreytur fyrst tækifæri gafst til?