148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

393. mál
[16:07]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. félags- og jafnréttisráðherra til hamingju með það að vera kominn með þetta mál fyrir þingið að nýju. Það er rétt sem hæstv. ráðherra minntist á að málið var lagt fyrir þingið í raun og veru í tvígang í ráðherratíð minni, en til þess að gæta að allrar sanngirni við málið þá var vinna við málið einmitt líka mjög langt komið í tíð þáverandi félagsmálaráðherra Eygló Harðardóttur, á hún mikinn heiður skilinn varðandi þá vinnu sem þá var unnin.

Ég er á svipuðum slóðum í mínum vangaveltum eins og hér hefur þegar komið fram og þrátt fyrir mikilvægi þessa máls og við erum mjög aftarlega á merinni þegar kemur að verndun minnihlutahópa með fullkominn skort á mismununarlöggjöf, eins og ítrekað hefur verið bent á. Ég er sammála hæstv. ráðherra að það er gott að ljúka þessi máli þó að við höfum metnað til þess að ganga lengra.

En á milli þinga á síðasta ári þá lét ég kanna það stuttlega í ráðuneytinu hvaða annmarkar væru á því að taka málið upp fyrir haustþingið. Niðurstaða okkar þá varð sú að of skammur tími væri til stefnu miðað við það markmið að leggja þetta fram síðasta haust og krefðist of mikillar vinnu.

Spurning mín til ráðherra í fyrra andsvari er: Fór einhver frekari athugun á því fram innan ráðuneytisins nú í millitíðinni í ljósi þess að verið var að vinna frekar mismununarfrumvarpið hvað vinnumarkaðinn varðaði?