148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

393. mál
[16:09]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Til þess að gæta sanngirni gagnvart öllum félagsmálaráðherrum sem starfað hafa hér í talsvert langan tíma þá er þetta mál búið að vera í vinnslu mjög lengi. Eins og ég kom inn í framsöguræðu minni var árið 2003 fyrst farið að vinna með þessi mál. Síðan eru 15 ár. Það eitt gefur okkur tilefni til þess að velta fyrir okkur af hverju mál eins og þessi, sem eru svo sjálfsögð og eiga að vernda minnihlutahópa í íslensku samfélagi, skuli þurfa að velkjast um í kerfinu í 15 ár. Það er ekki við neinn einn að sakast í því efni. Ég held að það sé bara við íslenska hugsun að sakast. Þar held ég að hundurinn liggi grafinn.

Varðandi það sem hv. þingmaður spyr um og snýr að þessu máli held ég að efnisleg rök fyrir því að þetta mál kemur fram með þeim hætti eins og raun ber vitni séu þau sömu og þegar hv. þingmaður var ráðherra. Þetta er fyrsta skrefið í þessu efni. Eins og ég sagði áðan taldi ég rétt að bæði málin væru skoðuð samhliða varðandi breytingar. Niðurstaðan varð sú að gera breytingar á seinna málinu sem hér var lagt fram og erum við þar með að stíga ákveðið skref og lengra en frumvörpin gerðu sem lögð voru fram á sínum tíma.

Varðandi frekari breytingar þá töldu menn rétt að þetta væri fyrsta skrefið í því efni og þyrfti eiga samráð við fleiri hópa þar að lútandi. Eins og hv. þingmaður veit og ég rakti að einhverju leyti í framsöguræðu minni þá liggur að baki þessum frumvörpum gríðarlega langt samráðsferli sem spannar fleiri en eina og fleiri tvær ráðherratíðir. Það er kannski vegna þess að menn telja sig ekki geta gert stórar breytingar. Kannski er það hugsunarvilla. Ég veit það ekki. En ég hvet þingið til þess að skoða það sérstaklega.