148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

393. mál
[16:12]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Um leið og ég tek undir með hv. þingmanni sem hann var að tala um, að við værum of íhaldssöm í þessum efnum, vil ég segja að ég ætla að vera íhaldssamur gagnvart því að ég ætla ekki að láta vinna minnisblað fyrr en formleg beiðni kemur frá nefndinni um að vinna slíkt minnisblað. Hins vegar held ég að það taki ekki langan tíma vegna þess að í ráðuneytinu liggja fyrir öll rök og sjónarmið hvað það snertir og væri hægt að taka það saman á hálfum degi. Það er sjálfsagt að vera nefndinni innan handar í þessu máli óski hún þess með formlegum hætti. En ég ítreka þó að þegar ráðherra er búinn að leggja mál eins og þetta fyrir þing er það í höndum nefndarinnar og löggjafarþingsins en ekki framkvæmdarvaldsins. En óski löggjafarvaldið eftir upplýsingum frá framkvæmdarvaldinu er sjálfsagt að verða við því og að aðstoða nefndina í öllum hennar störfum, hvort sem það snýr að þessu atriði eða öðrum.