148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

jöfn meðferð á vinnumarkaði.

394. mál
[16:35]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta framsögu. Það kemur honum ekki á óvart eftir nokkur samtöl okkar að við erum ekki alveg samstiga, ekki alveg á sömu blaðsíðu. Ég hef miklar efasemdir, ekki bara um þetta frumvarp eða í rauninni þessi tvö frumvörp sem hæstv. ráðherra var með framsögu hér á undan og væri hægt að ræða, heldur almennt um þá tilhneigingu okkar á þingi að setja lög um alla mannlega hegðun hverju nafni sem nefnist. Það er braut sem mér hugnast ekki. Það gengur bara gegn þeim lífsviðhorfum sem ég hef. Það sem ég óttast kannski einna mest þegar menn fara í svona lagasetningu og ég dreg ekki í efa að tilgangurinn er góður, um það verður ekki deilt, er að við náum ekki þeim markmiðum sem við erum sammála um, að vinna gegn hvers konar misrétti, með lagasetningu af þessu tagi. Það eru jafnvel til þeir sem ganga svo langt þótt ég sé nú kannski ekki alveg sammála því að færa rök fyrir því að það geti jafnvel snúist upp í andhverfu sína.

Það sem ég hef kannski einna mestar áhyggjur af er að með því að vera að setja sérstök lög um hitt og þetta í mörgum lagabálkum, sjálfstæðum lagatexta, til að ná fram góðum markmiðum þá gætum við verið að vinna skaða á öðrum. Við gætum verið að draga úr mikilvægi þeirra ákvæða sem okkar grunnplagg sem allt okkar starf á að byggjast á, stjórnarskrá lýðveldisins, innifelur. Það er alveg ljóst og við þekkjum öll dæmi um það að því miður er fólki stundum mismunað af ýmsum ástæðum, konum og körlum, miðaldra og ungum, fólki af erlendu bergi brotið með mismunandi trúarbrögð, kynhneigð o.s.frv. Ég hygg að við ættum að hafa umræðuna fremur á þann veg að spyrja: Hvernig getur það gerst að við látum það líðast þegar við erum með grunnplaggið okkar, stjórnarskrána sjálfa, sem bannar alla slíka mismunun?

Með leyfi hæstv. forseta, vil ég lesa upp 65. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir orðrétt:

„Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.“

Ég geri mér grein fyrir því að við eigum eftir að ræða bæði þessi frumvörp sem hér hafa verið rædd ítarlega, nefndir eiga eftir að fara yfir þau og sjálfsagt gera einhverjar breytingar og ef ég skil hæstv. ráðherra rétt þá er hann nú fremur að brýna viðkomandi nefndir til að ganga lengra en gert er í þeim frumvörpum sem hann hefur lagt fram. Látum það gott heita. En ég held að við þurfum að spyrja okkur reglulega að því, ekki bara þegar kemur að þessum frumvörpum heldur almennt í lagasetningu, hvort þau lög sem við erum að fara að setja og samþykkja, hvort lögin, lagasetningin sjálf, þjóni þeim tilgangi sem við getum kannski verið sammála um að við viljum ná. Ég óttast að í þessu tilfelli sé það ekki og það sé ákveðin sjálfsblekking fólgin í því.

Ég held að við verðum að velta því fyrir okkur líka, eins og ég sagði áðan, hvort það kunni að vera að lög af þessu tagi þynni út eða grafi undan ákvæðum annarra laga annars vegar, t.d. um jafnan rétt karla og kvenna sem ég hélt fram á síðasta ári að jafnlaunavottun myndi gera, og hins vegar hvort þau þynni út og geri okkur næstum því ónæm fyrir þeim ákvæðum stjórnarskrárinnar sem við ættum auðvitað að miða allt við.

Þetta eru varnaðarorð í upphafi. Ég ætla ekkert að lengja umræðuna. Nefndir þingsins fá þetta til umfjöllunar. Ég taldi mér bara rétt og skylt að lýsa þeim efasemdum sem ég hef og tek síðan efnislega afstöðu líklegast í 2. umr., þegar ég sé hvernig frumvörpin koma undan nefndum. Ég hef að vísu pínulitlar áhyggjur af brýningu ráðherra þegar hann brýnir nefndir að ganga jafnvel enn lengra og finnst mér nú töluvert langt gengið.

En almennt finnst mér stundum, og það á við um mig eins og líklegast meiri hluta þingmanna, að við spyrjum okkur ekki alltaf þessara grundvallarspurninga: Til hvers erum við að setja lögin og hvaða tilgangi og markmiðum ætlum við að ná? Og erum við sannfærð um það að einn lagabálkur í viðbót nái þeim markmiðum sem við ætlum og erum kannski sammála um að ná?