148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

jöfn meðferð á vinnumarkaði.

394. mál
[16:43]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum kærlega fyrir hans ágætu ræðu. Alltaf gaman að hlusta á góðan og gegnan íhaldsmann. Stundum mætti bara vera meira um það, svo ég segi það, þótt við séum ekki alltaf sammála. Á einum stað þótti mér hv. þingmaður þó fara aðeins út af sporinu í hugmyndafræði, ég veit ekki hvort hann hafi áttað sig á því sjálfur, það er þess vegna sem ég kem hérna upp þar sem ég vil heyra hans skoðun á því. Hann nefndi stjórnarskrána og jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar. Þetta lagafrumvarp fjallar um jafna meðferð á vinnumarkaði. Er þingmaðurinn virkilega þeirrar skoðunar, það kemur mér eilítið á óvart, að hann telji að ákvæði stjórnarskrárinnar um jafnan rétt fyrir lögum gildi um hegðun fólks á vinnumarkaði, þ.e. að einstaklingur sem telur sig mismunað af vinnuveitanda að hann geti vísað í jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar til þess að byggja rétt sinn á frammi fyrir venjulegum dómstólum? Menn eru með mismunandi skoðanir í þessum efnum. Það kemur mér eilítið á óvart að heyra að hv. þingmaður hafi þessa skoðun.