148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

jöfn meðferð á vinnumarkaði.

394. mál
[16:44]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú er ég ekki sérfræðingur í lögum, það skal viðurkennt, en ég hef alla tíð litið þannig á að 65. gr. stjórnarskrárinnar tryggði mönnum jafnan rétt, ekki bara fyrir lögum heldur í samfélaginu öllu. Það nær til meðal annars vinnumarkaðarins. Það nær líka til fleiri þátta. Jafnræði skal gilda og að mismunun hvers konar á grundvelli kynferðis, trúarbragða, litarháttar, uppruna, kyns, kynhneigðar o.s.frv., er bönnuð samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar. Það er að vísu töluvert af lagasetningu líka, t.d. þau lög sem ég vitnaði í um jafna stöðu karla og kvenna sem ég hygg að hafi verið sett 2008, sem tryggir að jafnrétti skuli vera á vinnumarkaði.

Ég er bara að segja: Ég dreg í efa að þegar menn eru hér að framleiða hver lögin á fætur öðrum í þeim góða og einlæga tilgangi að koma í veg fyrir mismunun á ákveðnum sviðum þjóðlífsins þá hafi þeir erindi sem erfiði. Ég held að við séum að blekkja okkur, við séum að færa okkur frá umræðunni og fría okkur frá því að takast á við vandann, vegna þess að þetta er líka spurning um hugarfar. Ég held að hugarfarið sé miklu mikilvægara heldur en lagasetningin sem fer fram hjá okkur, með fullri virðingu fyrir okkur öllum sem hér erum inni.