148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[17:37]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er áhugavert, einmitt það að fyrri fjármálastefna og núverandi hafa verið bornar dálítið saman. Venjulega væri það ekki hægt af því að það væru fjögur ár á milli og ekki margar samanburðartölur í rauninni. Það er kannski eðlilegt af því að við erum nýbúin að fara í gegnum fjármálastefnuferli að við höfum þann möguleika á að geta borið þær saman. Það er vissulega ekki mikill stærðarmunur á tölunum sem birtast í heildarafkomunni þó að það séu ansi margir milljarðar á bak við hvert 0,1% þarna, komma eina tölu, en afkoman segir hins vegar ekkert um það hversu marga milljarða ríkisstjórnin hefur aflögu þegar allt kemur til alls. Fjármálastefna með lægri tölu í heildarafkomu gæti einfaldlega verið með lægri tekjur af skattheimtu eða innheimtu o.s.frv. á meðan sú sem er með hærri tölu er einfaldlega með meiri gjaldheimtu og heldur bara þeim hluta þar. Það segir ekki alveg allt að þessi fjármálastefna sé með 50 milljörðum meira en hin, ekki nauðsynlega, sérstaklega þegar það er tiltekið í þessari stefnu að það eigi að lækka skatta. Það var ekki sérstaklega tiltekið í fyrri fjármálastefnu, ekki alveg eins afgerandi að mig minnir.

Helsta gagnrýni mín hins vegar hefur verið sú að það vantar greinargerð og útskýringar um það hvernig fjármálastefnan stenst grunngildin. Þá vildi ég spyrja hv. þingmann: Hvar er hún?