148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[17:46]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Frú forseti. Ég ætla að segja hvernig mig langaði að byrja þessa ræðu. Ég ætlaði að byrja hana á því að þakka kærlega þeim fulltrúum stjórnarflokkanna sem hér sitja fyrir að vera viðstaddir ræðu mína af því að hér voru áðan fulltrúar allra stjórnarflokka. Ég ætlaði einnig að þakka hæstv. fjármálaráðherra kærlega fyrir að láta sjá sig og hlýða á mig. En því miður verður upphaf þessarar ræðu að vera öllu ólíkt því að hér eru nú einungis fulltrúar tveggja þeirra stjórnarflokka sem eiga sæti í ríkisstjórn, ekki Framsóknarflokksins, og hæstv. fjármálaráðherra hefur kosið að yfirgefa salinn á þeim tíma sem eini þingmaðurinn sem flytur skriflega breytingartillögu við fjármálastefnu hans stígur í pontu. Ég held að ég sé fyrsti stjórnarandstöðuþingmaðurinn sem hæstv. fjármálaráðherra kýs að hlýða ekki á. Ég er að velta fyrir mér hvort þetta sé tilviljun, hvort það sé hans hugmynd um virðingu við þann þingmann sem hér stendur.

Gott og vel. Ég ætla ekki að fara í langar umræður um fundarstjórn forseta. Því hefur klárlega verið komið skýrt á framfæri að viðveru ráðherra sé óskað hér og ef hann kýs að hunsa þau tilmæli er það bara hans sómi eða skömm, eftir því hvernig hann kýs að líta á það.

Ég átti einu sinni sæti í ríkisstjórn með hæstv. fjármálaráðherra sem er ekki hér og í þeirri ríkisstjórn lögðum við fram ríkisfjármálastefnu og einnig ríkisfjármálaáætlun. Samanlagt var þetta kallað mörgum orðum, þetta var kallað frjálshyggja, öfgahægristefna, sveltistefna. Sum af þessum orðum lít ég reyndar ekki á sem níð, mér finnst ekkert slæmt að vera kallaður frjálshyggjumaður, svo ég segi það bara beint. Mér finnst ekkert slæmt að vera kallaður hægri maður heldur, mér finnst þetta ekkert níð, það er vissulega slæmt að vera kenndur við sveltistefnu enda er þar gefinn til kynna ákveðinn ásetningur sem ég kannast ekki við. En eins og ég segi, ég tók þessu ekki sem níði en þetta var klárlega meint þannig.

Og hvað gerði Sjálfstæðisflokkurinn við þá aðila og þá manneskju sem notaði þetta orð, sveltistefna? Jú, hann bauð henni forsætisráðherrastólinn, gerði formann Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs að forsætisráðherra. Og núna situr Sjálfstæðisflokkurinn í róttækri sósíalistastjórn. (Gripið fram í.) Það er róttækur sósíalisti í stóli forsætisráðherra. Hvað heitir stjórnin þá? Róttæk sósíalistastjórn. Og hann leggur fram fjármálaáætlun sem er miklu meira í takt við þá stefnu, eðlilega. Sumir eru ánægðir með hana, aðrir síður.

Ég hef sem hægri maður ákveðna vegvísa í lífinu og það eru til aðilar hverra umsagnir ég les með meiri athygli en aðrar án þess að ég geri þær skoðanir alltaf að mínum. Engu að síður er það þannig að þegar ég sé umsagnir frá Viðskiptaráði, Samtökum atvinnulífsins eða fjármálaráði, sem margar eru á svipaðan veg, legg ég við hlustir. Án þess að ég sanni það fyrir þingheimi að ég hafi lesið þessar umsagnir með því að vitna orðrétt í efni þeirra þá er eitt sameiginlegt í þeim mörgum, það er gagnrýnt að aðhaldsstig ríkissjóðs sé ekki nægjanlegt. Það er kjarninn í þessari gagnrýni.

Þegar ég fylgdist með þessari umræðu fyrir ári þegar hæstv. þáverandi fjármálaráðherra, besti fjármálaráðherra Íslandssögunnar, Benedikt Jóhannesson, sat í þessu sæti og tókst á við þingmenn tók hann upp á því, sem mér þótti mjög sniðugt, að spyrja þingmenn einfaldlega hvort þeir væru á móti þeirri fjármálastefnu sem lögð hafði verið fram og hvernig þeir vildu að þeirra eigin fjármálastefna liti út. Hvernig myndu þeir vilja að heildarafkoma ríkissjóðs yrði á næstu fimm árum? Þá varð stundum fátt um svör. Þar sem ég bjóst við að hæstv. fjármálaráðherra yrði hér í salnum og myndi jafnvel takast á við mig og beita kannski sama bragði vildi ég undirbúa mig fyrir það. Besti undirbúningurinn er einfaldlega að semja breytingartillögu sem myndi segja klárt fyrir um hvernig ég myndi kjósa að hafa fjármálastefnu ríkisins til næstu fimm ára.

Auðvitað er maður hóflega bjartsýnn á að sú tillaga sem hér er borin fram nái fram að ganga í þessari atrennu, en kosturinn við að leggja hana fram með þessum hætti, þótt því fylgi áhætta líka, er að það er erfitt að rífast við tölur. Við setjum fram hvernig við í Viðreisn og vonandi fleiri þingmenn, innan sem utan stjórnar, myndum vilja hafa þetta. Ef ég fer örstutt í gegnum ekki aðeins tilurð breytingartillögunnar heldur hver hugsunin þar að baki er og hver munurinn er á þessum tveimur, þessari óvarlegu stefnu sitjandi ríkisstjórnar og þessari töluvert ábyrgðarfyllri stefnu sem þingmenn Viðreisnar hafa sett fram, þá gerum við í grundvallaratriðum ráð fyrir því að heildarafkoma ríkissjóðs á næstu fimm árum verði sú sama sem hlutfall af vergri landsframleiðslu og gert var ráð fyrir í þeirri fjármálastefnu sem lagt var upp með. Við gerum ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs verði sú sama.

Síðan fylgir annað í kjölfarið. Við sem óbreyttir þingmenn höfum ekki forsendur til að draga í efa þær ytri aðstæður sem fjármálaráðuneytið gefur sér. Til dæmis höfum við ekki forsendur til að áætla að heildarafkoma sveitarfélaga verði einhver önnur en lagt er upp með af því að því stjórnar ríkissjóður ekki. Að sama skapi, þrátt fyrir að gagnrýni Viðskiptaráðs sé á þá leið að hugsanlega sé það mat of bjartsýnt þegar gert er ráð fyrir hver afkoma opinberra fyrirtækja eigi að vera, það sé ekki nægilega vel rökstutt, höfum við ekki forsendur til að draga það í efa og koma með einhverjar aðrar tölur. Þess vegna leggjum við upp með þann hluta algjörlega óbreyttan. Við gerum ráð fyrir sömu afkomu ríkissjóðs og lagt var upp með og allt annað er einfaldlega afleiðing af því.

Önnur breyting sem við leggjum þó áherslu á og ég hygg að ætti að njóta góðs stuðnings, í það minnsta meðal Sjálfstæðisflokksins ef miðað er við landsfundarályktanir hans, er að við áréttum í 3. lið breytingartillögunnar:

„Öllu óreglulegu og einskiptis fjárstreymi í ríkissjóð verði varið til að hraða enn frekar niðurgreiðslu skulda eða til lækkunar á ófjármögnuðum lífeyrisskuldbindingum í því skyni að treysta fjárhagsstöðu ríkissjóðs og draga úr vaxtakostnaði.“

Þetta hefur verið fellt út, þ.e. þetta er ekki lengur með í þeirri tillögu sem lögð er til grundvallar af því að í henni er gert ráð fyrir lakari heildarafkomu ríkissjóðs og þar með talið hægari niðurgreiðslum skulda.

Frú forseti. Sú fjármálaáætlun sem lagt var upp með á seinasta kjörtímabili gerði ráð fyrir ákveðnum ytri aðstæðum. Þáverandi hæstv. forsætisráðherra, núverandi fjármálaráðherra, sem ég þakka fyrir að vera kominn í salinn að hlýða á mig, sagði eitthvað á þá leið að sú stefna sem þar væri sett fram væri, ef eitthvað væri, ekki nægilega aðhaldssöm miðað við aðstæður. Staðreyndin er auðvitað sú að það hefur ekkert það mikið breyst í hinum ytri aðstæðum ríkissjóðs sem kallar á breytingar, a.m.k. ekki í þá veru sem hér er lagt upp með, alls ekki. Einu breytingarnar sem hafa átt sér stað eru augljóslega pólitískar breytingar, það er öllum augljóst, breytingar sem hafa átt sér stað eru pólitískar breytingar. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks sem er núna í stjórn með Vinstrihreyfingunni – grænu framboði og Framsóknarflokknum, róttæk sósíalistastjórn eins og ég sagði áðan, þarf núna að beita öðrum ráðum í ríkisfjármálum en áður. Ég þykist vita hvað almennum félagsmanni í Sjálfstæðisflokknum finnst um þessa ríkisfjármálastefnu, að óbreyttu, auðvitað gerir fólk sér grein fyrir hinum pólitíska veruleika en það er ekki hægt að lesa úr því að Sjálfstæðisflokkurinn eða hinn almenni Sjálfstæðismaður yrði glaður með þá nálgun sem hér er tekin, miðað við t.d. ályktanir síðasta landsfundar þar sem var stigið töluvert fastar á bremsuna en gert hafði verið áður. Hér er auðvitað gefið í.

Frú forseti. Ég held að margt í tillögu minni og flest raunar ætti að vera þess eðlis að flestir flokkar hér á þingi ættu, að öllu jöfnu, að geta fallist á hana og fallist á að þar er á ferðinni miklu ábyrgari fjármálastefna en sú sem ríkisstjórnin leggur til grundvallar.

Þetta snýst um afkomu ríkissjóðs. Ég held að þrátt fyrir að ég hafi talað hér mikið um aðhald þá er ekkert í þessari stefnu sem t.d. fulltrúar Samfylkingarinnar eða Pírata eða Miðflokksins eða Flokks fólksins gætu ekki fallist á vegna þess að eitt af því sem er breytt frá því síðast er að ekki er lengur sett þak á heildarumsvif ríkisins. Þótt ég sé því fylgjandi þótti mér ólíklegt að það næði fram að ganga á þessu þingi að óbreyttu. Þannig að ef einhver vill fara í þá miklu uppbyggingu sem lögð er til þarf einfaldlega að afla til þess fjár með skattheimtu. Mér finnst það satt að segja miklu heiðarlegri nálgun á hlutina. Ef við viljum sannarlega fara í þessa uppbyggingu er bara eðlilegt að það sé greitt fyrir hana nú og að við greiðum skuldir núna á þeim tíma sem við erum sannarlega í góðri aðstöðu til þess. Trúum við því virkilega að við verðum í betri aðstöðu til að greiða niður skuldir eftir óljós fimm eða tíu ár? Það held ég ekki. Þess vegna er nauðsynlegt á þessum tímapunkti að greiða niður skuldir, ekki hægja á þeirri þróun, ekki draga úr afgangi ríkissjóðs, alls ekki.

Ég veit og trúi að það sem hér er lagt fram sé miklu betri nálgun á það hvernig heildarafkoma ríkissjóðs á að vera. Svo getur vel verið að einhverjir spyrji mann: Hvað viltu þá skera niður á móti eða hvernig sérðu þetta fyrir þér? Flokkarnir hér þurfa ekkert að hafa sömu skoðun á því, sumir myndu kannski vilja sjá sum útgjöld lægri eða hækka einhverja ákveðna skatta. Það er ekki höfuðatriði. Ástæðan fyrir því að við settum einu sinni lög um opinber fjármál var sú að reyna að aðgreina þessa hluti, að reyna að líta fyrst á heildarafkomu ríkissjóðs og taka þá ákvörðun áður en við tækjum ákvörðun um hvaða veg eigi að byggja, hvaða skóla eigi að stækka o.s.frv.

Frú forseti. Að lokum vil ég nefna að við höfum auðvitað gengið í gegnum þessi stig áður. Við höfum áður verið á þeim stað þar sem ríkissjóður hefur í bullandi góðæri ráðist í heilmikil útgjöld og vaxið mjög hratt í stað þess að greiða niður skuldir. Það var fyrir tíu árum og nú fær Sjálfstæðisflokkurinn gullið tækifæri til að endurtaka ekki sömu mistök. Því miður er hann að glutra því niður að mínu viti. Í stað þess að greiða niður skuldir þenur hann því miður út ríkisbáknið, þenur útgjöld hins opinbera. Og hvað gerist svo þegar hægist um? Jú, þá mun þurfa að fresta spítalabyggingu, þá mun þurfa að segja upp kennurum í háskólanum. Þá þarf að draga úr umsvifum hins opinbera, en ekki á þeim tíma sem hugsanlega hefði verið gott að gera það og lækka skatta til að örva hagvöxt.

Ég vona að fjármálaráðherra geymi þessa breytingartillögu sem ég hef lagt á borðið hérna hjá honum, hann getur þá geymt hana hjá sér og hugsað til hennar ef allt fer á versta veg, að þarna hefði hann getað tekið þau góðu ráð sem honum voru veitt. Því miður fer það kannski svo að ekki verður það endilega hans eða hans flokks að taka til eftir þessa óábyrgu stefnu heldur hugsanlega forsætisráðherra Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, Ágústs Ólafs Ágústssonar fjármálaráðherra og annarra sem munu koma í kjölfarið eftir að þessi róttæka sósíalistastjórn stígur til hliðar. [Hlátur í þingsal.]